23.08.1919
Neðri deild: 43. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 215 í C-deild Alþingistíðinda. (2966)

83. mál, hvíldartími háseta

Frsm. meiri hl. (Matthías Ólafsson):

Það er nú orðið svo mörgu að svara og á svo margt að minnast, að jeg býst við, að jeg hljóti að verða nokkuð langorður að þessu sinni. Það hefir verið talað um, að þörf væri á frv. þessu, og að það væri ósk sjómanna, að það fengi framgang. Mín skoðun er, að þörfin á lögum þessum sje ekki mjög brýn, og óskir þeirra, sem lögin eru ætluð, ekki mjög almennar. En hvort sem þeir eru fleiri eða færri, sem lögin vilja fá, þá er það ekki þyngst á metunum fyrir mjer, heldur hitt, hverjar afleiðingar þeirra muni verða, og jeg fæ ekki sjeð, að þær geti orðið góðar.

Það hefir verið tekið fram, að fyrir nokkrum árum hafi verið vinnuharka á botnvörpungum; en því hefir ekki verið neitað, að hún hafi farið minkandi. En svo mun verða áfram, þótt lög verði sett um hvíldartíma háseta, eins og jafnan hefir verið, að dugnaðarmenn munu, jafnt á botnvörpungum sem við annað, annað slagið heimta mikið af mönnum sínum, eins og af sjálfum sjer. En það er varúðarvert, jafnframt því sem það er torvelt, að leggja miklar hömlur á slíka menn, eins og það er yfir höfuð varúðarvert að draga úr dáð og dugnaði manna.

Minni hl. færir í nál. sínu þau rök fyrir þörfinni á frv. þessu, er jeg skal nú með leyfi hæstv. forseta lesa upp:

„Ýmsir aldraðir og heilsulinir sjómenn kenna kappvökum við togaraveiði um heilsubrest sinn, og óneitanlega eru kappvökur einhver allra versta sóun á mannlegum lífsþrótti.“

Hv. minni hl. þekkir þetta má ske betur en meiri hl.; hann hefir ekki orðið var við venju meiri heilsubrest hjá hásetum á botnvörpungum. Þó verður því ekki neitað, að sumir heilsuveilir menn munu ekki þola vinnu á botnvörpungum, en svo er um fleiri vinnu, að slíkir menn munu ekki heldur þola hana og eru ekki færir um að gefa sig í hana; það er svo um flesta sjómensku, að hún hentar best heilsuhraustum mönnum. Það má fullyrða það, að á botnvörpungum hefir ekki verið gengið svo hart að hraustum mönnum, að þeir hafi haft ilt af, enda bera þeir það með sjer, því að botnvörpungamennirnir eru einhverjir glæsilegustu sjómenn okkar. Þeir hafa ágætt viðurværi og góðan aðbúnað, og vinnan stælir hrausta menn. Jeg tek undir með hv. 1. þm. G.-K. (B. K.), að það sje ósamkvæmni í því, að setja lög handa þessari stjett manna, sem eigi þarf lengur á þeim að halda, en ganga fram hjá öðrum, sem þeirra þarfnast, svo sem hásetum á þilskipum, því að um þá hefi jeg heyrt, að þeir hafi haft óhæfilega miklar vökur og erfiði sumir hverjir, nú á síðasta vetri. Að vísu má segja, að þeir hafi haft mestan haginn af því sjálfir, en ekki er þó ólíklegt, eða óeðlilegt, að duglegir og kappsamir skipstjórar hafi ýtt undir þá, vegna sjálfra sín og húsbænda sinna. Það er að heyra á hv. minni hl., að aðrir muni á eftir koma, enda má telja það vafalaust, að aðrir flokkar muni feta í fótspor þessara frumherja; gæti þá svo farið, að sett yrðu að lokum lög um hvíldartíma hjá bændum, enda yrði fult svo auðvelt að framfylgja þeim lögum sem þessum, og engin sanngirni að neita þeim, sem á eftir koma, ef þessir fá áheyrn. Mundi þar, eins og hjer, verða að fara eftir ósk verkamanna, en ekki vinnuveitenda. Hv. þm. Dala. (B. J.) vill, að farið sje eftir ósk verkamanna, og lögin gefin út á þeirra ábyrgð, en ekki þingsins. En jeg hefi aldrei heyrt það fyr, að lög geti verið gefin út á annara ábyrgð en þeirra, sem lögin setja.

Mjer ekki kunnugt um þessar margítrekuðu óskir eftir lögum þessum, og finst þær dálítið ólíklegar, því að í fólkseklu þeirri, sem nú er, mun ekki mjög torvelt fyrir háseta og annað verkafólk að komast að samningum við vinnuveitendur um hæfilegan hvíldartíma, hve nær sem atvik leyfa. Hv. flm. (J. B.) talaði um, að vökurnar á botnvörpungunum gætu spilt heilsu skipverja; en eigi að síður vill hann leyfa þeim að spilla heilsu sinni með samningum. Minni hl. minnist í nál. sinu á siglingalögin og segir, að þau ákveði einhliða um vald og rjettindi skipstjóra, þegar skip eru í förum, og að þau tryggi hásetum enga ákveðna hvíld eða undanþágu frá því, er skipstjóri kunni að bjóða í þarfir skips og ferðar. Þetta er rjett hermt, svo langt sem það nær, en það er ekki laust við, að hann noti sjálfur siglingalögin dálítið einhliða, og sleppi að geta um ýms ákvæði í þeim, sem eiga að tryggja háseta gegn harðúðugri meðferð skipstjóra. Eins og vökum er háttað á skipum, eiga menn að öllum jafnaði að geta fengið 10 stunda hvíld í sólarhring, og mikið af þeirri vinnu, sem unnin er í vinnutímanum, er ljett vinna. Það er, eins og jeg segi, ákveðinn tími, sem menn eiga að fá hvíld á segslskipum; hitt að eins undantekning, að út af því sje brugðið, svo sem ef bjarga þarf seglum í ofviðri, ef nægur mannafli er ekki til þess á þiljum uppi. Þannig er því háttað þegar skip eru á siglingu. En ekki verður slíku komið við þegar skip eru að fiski. Það hefir þegar verið settur 8 stunda vinnutími í sumum löndum við sumar tegundir atvinnurekstrar. En hingað til hefir það ekki komið til mála að ákveða fastan, daglegan vinnutíma á fiskiskipum, enda er veðri og veiði oft þannig hagað, að slík ákvæði mundu verða til ómetanlegs tjóns fyrir alla, og ekki síst fyrir þá, sem veiðina stunda. Jeg get ekki hugsað mjer, að nokkur farmenska geti átt sjer stað, nema skipstjóra sje — innan vissra takmarka þó — gefið einveldi yfir skipshöfn sinni. Það yrði dálaglegt ástand, ef skipstjórinn ætti að þurfa að kveðja skipshöfn sína til þings og láta hana ganga til atkvæða um, hvað gera skyldi í það og það sinn. Reynist einhver skipstjóri óbilgjarn, þá er innan handar fyrir háseta hans að ganga af skipi frá honum og ráða sig til annara. Þetta er besta varnarvopn hásetanna, því að það kennir skipstjórum að gerast ekki of heimtufrekir.

Hvað snertir það, er hæstv. forsætisráðherra (J. M.) lagði til þessa máls, verð jeg að segja svipað og hv. þm. Dala. (B. J.), að úr því að hann hefir svona mikinn áhuga á máli þessu, þá hefði verið vel gert af honum að koma með löggjöf um þetta efni einmitt nú. Hann vissi, að ýmsir menn óska þessa, sem þykjast vita betur en meiri hl. nefndarinnar. Hefði þá verið rjett að setja lög, og ekki um þetta eitt, heldur um alla vinnu á sjó og landi. Það hefði þá verið samræmi í því. Jeg efast um, ef honum hefði verið kunnugt, hvers við þarf við þau störf, er lúta að sjávarútveginum, að hann hefði tekið svo sterkt til orða. Þetta mál er alveg laust við verkamannaspursmálið í öðrum löndum. Það er uppi meðal þeirra, sem stunda námavinnu og verksmiðjuvinnu. Þar hafa menn alt í hendi sjer, er að störfum og vinnutíma lýtur. En hæstv. forsætisráðherra þekkir þó, hvernig það mundi gefast í sveitinni að fastákveða t. d. 10 kl.st. vinnudag um hásláttinn, hvernig sem á stendur um tíðarfar og vinnuafl.

Þá þykist jeg ekki geta komist hjá því að athuga niðurlagsatriðið í nál. hv. minni hl. Þar er þannig að orði komist:

„Mjer þykir meiri von til þess, að ákvæði frv. um lögtrygðan hvíldartíma skapi þá mennilegu hugsun hjá hásetunum að rækja skyldustörfin vel, en að þau skapi mótþróa og tómlæti, og byggist sú skoðun á því, að rjettlæti skapi rjettlætishugsun hjá þeim, er þess fá að njóta.“

Það getur vel verið, að það megi vekja upp hjá hásetum, eða mönnum yfirleitt, þann hugsunarhátt. En til skamms tíma hefir ekki þurft að vekja hann hjá okkar ágæta verkalýð, síst okkar ágætu sjómönnum. Þeir hafa hingað til hlýtt skipstjóra sínum í öllu, og talið það sjálfsagt. Þeir hafa talið sjer það heiður að fylgja foringja sínum sem best og vinna með honum að sameiginlegu starfi. En svo bætir minni hl. við:

„Hitt er aftur sennilegt, að alger daufheyrsla við kröfum háseta um rjettingu mála þeirra í þessu efni geti leitt til frekari ágreinings, eða jafnvel óbilgirni, af hendi þeirra, er álíta sig bera skarðan hlut frá borði.“

Þegar jeg ætla að dæma um, hvernig aðrir muni haga sjer í einhverju atriði, þá dæmi jeg venjulega út frá því, hvernig jeg myndi haga mjer. Jeg hefði reynt að athuga rökin, sem fram komu móti málinu. Vafamál, hvort jeg hefði fallist á þau, en aldrei hefði jeg gripið til örþrifaráða. En ef til vill hefði jeg borið málið aftur fram, ef jeg teldi mig órjetti beittan. Myndi jeg því ekki telja óeðlilegt, þótt hv. minni hl. gerði þetta, ef honum finst hlutur hans fyrir borð borinn. En jeg get ómögulega fallist á skoðanir hans.

Þá vildi jeg að eins minnast á það, sem jeg heyrði af ræðu eins hv. þm. úr meiri hl., hv. 2. þm. S.-M. (B. St.). Jeg heyrði ekki vel til hans, svo að jeg fer eftir því, sem „Morgunblaðinu“ segist frá ræðu hans. Hann minnist eitthvað á, að honum þætti dagskráin eitthvað hranaleg. Yfirleitt virtist svo, sem hann hefði eitthvað við nál. að athuga, en hann mintist ekkert á það í nefndinni. En dagskrá meiri hl. hljóðar svo:

„Með því að eigi virðist ráðlegt að fastákveða með lögum hvíldartíma háseta á botnvörpuskipum, nje við annan veiðiskap, telur deildin ekki gerlegt að fallast á frv., og tekur því fyrir næsta mál á dagskrá.“

Það er ekki eingöngu af því, að hjer er ekki farið fram á að ákveða hvíldartíma á öðrum skipum, að meiri hl. er á móti frv., heldur af því, að hann vill ekki, að sú regla komist á, að setja lög um þetta efni. Hann vill, að bæði hásetar og yfirmenn vinni meðan kostur er, og þegar færi býðst, og að sjálfsögðu sje engum misboðið á neinn hátt. Því vill ekki meiri hl. setja lög um slíkt.

Jeg býst við tækifæri síðar til að segja fleira um málið, og mun ekki taka fleira fram nú.