21.07.1919
Neðri deild: 12. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 261 í C-deild Alþingistíðinda. (3000)

75. mál, bifreiðaskattur

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Fjárhagsnefndin hefir öll orðið sammála um að flytja frv. þetta, að því undanskildu, að einn hv. nefndarmaður er á móti skatti af vöruflutningabifreiðum.

Það verður auðvitað álitamál um skatt þennan, hversu hár hann á að vera. Í því tilliti getur vel verið, að finna megi aðra leið heppilegri. En nefndin áleit þetta hæfilegt. Önnur atriði málsins, svo sem um innheimtu skattsins, hefir nefndin borið undirlögreglustjóra, og taldi hann þeim heppilega fyrir komið.

Nefndin gengur út frá því, að ef bifreiðarnar borga sig ekki með skatti þessum, þá verði hækkaður taxtinn, og er það aftur á valdi stjórnarinnar, og mun hún fær um að ráða fram úr þeim atriðum. Það er alkunnugt, að bifreiðar spilla mjög vegum, og er það því ekki nema sanngjarnt, að þær bæti að nokkru fyrir. Okkar vegir eru heldur ekki sniðnir fyrir slík farartæki, og þar mun brátt koma, að laga verði þá svo, að færir verði fyrir þau. Það studdi líka nefndina, að henni fanst bifreiðum fjölga hjer fullört, og verður sú fjölgun að nokkru leyti að teljast hreinasti „Luxus“. — Sýnist þetta því vera vel til fallið sem skattstofn.

Nú er svo komið með bifreiðar hjer í bænum og víðar, að bæjarstjórn og landsstjórn hafa orðið að taka í taumana, vegna þess, hve ört þeim hefir fjölgað.

Hjer í bæ hafa götur alls ekki næga breidd fyrir slík farartæki og eru á engan hátt svo úr garði gerðar, að heppilegar geti talist fyrir þau.

Það hefði því getað komið til mála, að bærinn hefði fengið eitthvað af skattinum, en hann hefir ekki komið fram með neina slíka málaleitun, og er því ekki gert ráð fyrir því í frv.