31.07.1919
Efri deild: 19. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 294 í C-deild Alþingistíðinda. (3032)

75. mál, bifreiðaskattur

Guðjón Guðlaugsson:

Jeg þarf ekki að vera langorður, því að jeg er alveg sammála háttv. 1. þm. Rang. (E. P.). Mjer dettur í hug, að lengi getur vont versnað, þegar um tollstofna er að ræða, en hjer keyrir þó fram úr hófi. Ranglátari og heimskulegri tollstofn en þennan er varla unt að hugsa sjer. Um leið og þingið styður samgöngur á sjó og landi er þessum skatti dembt á þá, sem ryðja nýja braut í samgöngumálunum, sem nokkurskonar hegningu. Þetta er mjer óskiljanlegt.

Fyrir nokkrum árum var maður styrktur til bifreiðarakstrar, en nú er verið að leggja tilfinnanlegan skatt á þessa atvinnugrein. Hvernig munu menn skoða þetta í framtíðinni, þegar um líka nýbreytni er að ræða, er þingið læst vilja styrkja, en menn vita af reynslunni, að á þá verður lagður skattur undir eins og fyrirtæki þeirra fara að bera sig? Menn eru að hugsa um að nota sjer flugvjelar og mun von á flugvjel til reynslu nú í sumar. Flugvjelastjórarnir hafa hjer dæmin fyrir sjer, hvort mikið sje leggjandi í þetta fyrirtæki, því að áliti þingið, að það græði, finst því sjálfsagt að skatta þá. Við því er nú búið, að lagður verði skattur á alla nýbreytni.

Þessi skattur myndi koma þyngst niður á .,privat“-mönnum. Það á að leggja 150 kr. skatt á bifreið fyrir 1 mann. Hvers vegna er þá verið að hlífa okkur, sem eigum vagnskrifli?

Það hefir verið fært fram, til þess að rjettlæta þennan skatt, að bifreiðar spilli svo mjög vegum. Þetta er, að minni skoðun, hreinasti sleggjudómur, sem hvorki er bygður á þekkingu nje viti. Sannleikurinn er sá, að bifreiðarnar spilla vegunum miklu minna en hestvagnar. Til þess að sjá það þarf enga sjerþekkingu, heldur er nóg að hafa augun opin. Heilbrigð skynsemi ætti að geta sagt mönnum það, að hjól með togleðurshringum slíta veginum miklu minna en járnvarin hjól. Auk þess er það altítt, að sami maðurinn sje með 2–3 eða jafnvel 4 hestvagna, og eru allir vagnarnir þá í halarófu, og hjólin á öllum vögnunum ganga í eitt og sama farið, sem hefir nærri því að eins hnífsbakka þykt. Jeg hefi litið eftir bifreiðum og tekið eftir því, hve mjög þær skemma vegina í samanburði við hestvagna. Jeg hefi átt kost á því að ganga um Laufásveginn 2–3 á dag. Í vor var gert við hann, og var hann harður og sljettur í maílok. Síðan rigningar byrjuðu er kaflinn frá Baldursgötu að Kennaraskólanum algerlega ófær. Hann er svo ófær, að í morgun treysti jeg mjer ekki til að ganga hann, heldur gekk jeg á grashnausunum fyrir utan veginn. En fyrir sunnan þennan kafla og eins fyrir neðan hann er vegurinn sljettur, og sjest hvergi hjólfar. Hvers vegna er þessi kafli einn ófær? Af þeirri einföldu ástæðu, að verið er að flytja möl á hestvögnum frá Kennaraskólanum upp Baldursgötu. Um veginn er mikil bifreiðaumferð, og hafa þær farið um hann allan jafnt. En á þeim kafla, sem þær hafa einar farið, er vegurinn alveg óskemdur.

Ef menn fallast á till. hæstv. fjármálaráðh. (S. E.), um að vísa málinu til nefndar, er auðvitað, að það á að fara til fjárhagsnefndar, þar sem frv. er flutt af þeirri nefnd í Nd. Væri það kurteisi við háttv., Nd. að vísa frv., til nefndar, en best væri að stytta því aldur, svo að það tefji ekki fyrir þessari háttv., deild.