05.09.1919
Efri deild: 49. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 303 í C-deild Alþingistíðinda. (3045)

75. mál, bifreiðaskattur

Halldór Steinsson:

Jeg var fyrst á móti þessu frv., vegna þess að jeg taldi skattinn of háan, en eftir upplýsingum þeim, sem nefndin hefir fengið, þá mun bifreið, sem er í gangi alt árið, fá inn um 20 þús. kr., og þótt slit og eyðsla sje töluvert, þá er það aldrei svo mikið, að ekki verði talsverður afgangur, svo að sá, er rekur það sem atvinnu, hafi allgóðan hagnað af rekstrinum. Yfirleitt hefir það verið svo, að allur þorri bifreiðanna hefir gefið góðar tekjur.

Hjer er ekki um neitt nýmæli að ræða, þótt það sje nýtt hjer á Íslandi, því um öll Norðurlönd hefir verið lagður skattur á bifreiðar. (E. P.: Ársskattur?). Það kemur í sama stað niður, hvort það er ársskattur eða ekki, og ef næsta þingi líst, þá getur það altaf breytt þessu.

Mjer líst svo, sem ástæða hv. þm. Ísaf. (M. T.) um það, hversu vegirnir sjeu illa hirtir, sje miklu frekar með frv., því ef frv. verður samþ., verður Alþingi miklu fremur fært um að leggja fram fje til vegagerðar, og aldrei hefir verið lagt fram meira fje í því skyni en er nú í fjárlögunum. Og þegar bifreiðarnar skemma vegina, þá er ekki nema rjett og sanngjarnt, að þær greiði skatt til vegagerða. Skatturinn er heldur ekki ægilegur, hann er ekki meiri en það, að þær geta unnið hann upp á 2–3 Þingvallaferðum, og skil jeg því ekki andróður þann, sem er á móti honum, jafnlitlum og hann hlýtur að vera fyrir hvern einstakan bifreiðareiganda, saman borið við tekjur af bifreiðunum.