16.08.1919
Efri deild: 32. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 459 í C-deild Alþingistíðinda. (3131)

72. mál, hundaskattur

Frsm. (Halldór Steinsson):

Jeg get verið samþ. hv. 4. landsk. þm. (G. G.), að því leyti sem hann álítur, að hundar til sveita sjeu of margir. — Enginn vafi er á því, að sumstaðar eru hafðir 4–5 hundar á heimili, þar sem 2–3 myndu nægja. — Það var og rjett hjá hv. þm. (G. G.), að lögin frá 1890 voru gerð til að koma í veg fyrir sullaveiki. — En sullaveikishættan er ekki um garð gengin, þó hreinsun fari sæmilega fram. — Hreinsunin er ekki nógu fullkomin — Ef vel ætti að vera, þyrfti að hreinsa tvisvar á ári. —

Hitt er jeg ekki samdóma hv. þm. um, að alla hunda eigi að skatta jafnhátt. — Hv. þm. (G. G.) áleit, að fáir hefðu hunda að gamni sínu, en þótt það sje ef til vill sjaldgæft úti um land, mun það talsvert alment í Reykjavík. — Jeg get verið samdóma hv. þm. (G. G.) um að færa út heimild hreppsnefnda og bæjarstjórna til að lækka skattinn, og komi hann fram með brtt. í þá átt til 3. umr., mun jeg greiða henni atkv.

En sjálfsagt tel jeg að gera mun á þarfahundum og óþarfahundum. —