12.09.1919
Neðri deild: 62. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 486 í C-deild Alþingistíðinda. (3162)

149. mál, þingsköp Alþingis

Magnús Pjetursson:

Mjer er óhætt að segja dálítið meira, því að það verður víst ekki prentað, enda býst jeg við, að háttv. aðalflm. (E. A.) hafi skákað í því skjóli, er hann flutti sína löngu ræðu. En mjer fanst fjarska lítið nýtt í henni, eða mótmæli gegn rökum okkar. Mjer heyrðist hann einkum vekja upp rök móti sjálfum sjer. En þó vil jeg svara honum nokkrum orðum, vegna þess, að hann vjek sjerstaklega orðum að mjer.

Hann sagði, að það væri ekki undarlegt, þó að jeg og hv. þm. Dala. (B. J.) væri móti þessari till., því að við værum kunnir að því, að vilja ekki spara. Það getur vel verið, að honum hafi fundist það. En þá eru fleiri okkur samsekir, því að jeg man ekki eftir því, að margar hafi verið feldar af till. þeim, sem við mæltum með fyrir hönd fjárveitinganefndar. Og þær voru víst ekki margar, sem hv. aðalflm. (E. A.) greiddi atkv. á móti. (E. A.: Jú, ekki svo fáar). Jeg minnist þess ekki. En aftur man jeg það um okkur þm. Dala. (B. J.) og mig, að við vorum báðir á móti 50 þús. kr. fjárveitingu til Árnessýslu. Þar hefir okkur þá líka greint á, en í öfuga átt.

Svo var spámaðurinn við frv. ca. 40–50 þús. kr. Jeg býst nú við, að eftir því, sem honum sagðist sjálfum frá, geti hv. deildarmenn ekki orðið sannfærðir um, að sparnaðurinn verði svo mikill. Hann talaði um, að nefndarálit væru alment of stutt, og vildi hafa þau miklu lengri og ítarlegri. En ef þessi aðferð væri tekin upp, þá yrðu nefndarálitin svo miklu lengri, að þau yrðu jafnlöng og framsöguræður nú, og heldur lengri en styttri. Og þegar nefndir klofna, myndu allar rökræður beggja eða allra nefndarbrotanna koma fram í þessu formi. Sama er að segja um greinargerðir fyrir frv., að þær yrðu tífalt lengri en nú. Og alt þetta myndi draga mjög frá því, sem háttv. flm. (E. A.) vill spara með prentkostnaðinum.

Og svo er eitt, sem háttv. flm. (E. A.) tók ekki tillit til. En það var geymsla þingræðnanna, því að jeg býst ekki við, að þær verði geymdar á þeim pappír, sem þær nú eru á frá hendi skrifaranna, og fyrirkomulaginu þyrfti að breyta, að öðru leyti, bæði um niðurröðun umræðna í hverju einstöku máli o. fl. Það yrði sennilega að rita þær upp á kálfskinn eða pergament eða þá að minsta kosti á góðan pappír. Þetta myndi líka draga frá prentunarkostnaðinum, sem háttv. flm. (E. A.) gerir ráð fyrir að spara.

Jeg vil benda hv. 2. þm. Árn. (E. A.) á það, að hann var ekki vel sjálfum sjer samkvæmur, þegar hann talaði um ræðurnar og breytingarnar á þeim. Hann sagði, að jeg breytti ræðum mínum frá því, sem jeg hjeldi þær í deildinni. En því neita jeg algerlega, og hann neitaði því líka sjálfur, þegar hann sagði, að venjan væri sú, að menn leiðrjettu meiningarskekkjur í ræðunum. Hann hefir því þarna svarað sjer sjálfur, að jeg, eins og aðrir hv. þm., leiðrjetti að eins meiningarskekkjur.

Mjer fanst hv. 2. þm. Árn. (E. A.) gera of lítið úr því, sem hv. þm. Dala. (B. J.) sagði, að þingræður gætu verið mönnum vernd gegn blöðunum. Mjer finst að vjer „langsarar“ getum ekki synjað fyrir, að það muni okkur heldur hagur að hafa þingtíðindin að bakhjarli, því ekki gera blöðin minna að álygum á oss en aðra. Við hv. flm. (E. A.) ættum því að vera sammála um, að það sje gott fyrir okkur að eiga prentað það, sem við höfum sagt, þegar við sífelt erum lagðir í einelti af samviskulausum álygum einstöku saurblaða.

Jeg vil líka benda á það, að hætt er við, að menn missi virðingu fyrir þinginu, þegar á að fara að gera það líkast hreppsnefndarfundum, þar sem engar ræður eru skrifaðar. (H. K.: Það er bókað þar). Það getur verið, að ræður á hreppsnefndarfundum í Barðastrandarsýslu sjeu skrifaðar, en annars þekki jeg ekki til þess. Þeir eru þá lengra á veg komnir þar en annarsstaðar. Og þetta myndi líka áreiðanlega lækka þingið og virðingu þess meðal almennings, þegar pukra á með það, sem sagt er hjer í þinginu, og dylja það fyrir almenningi.

Það hefir komið fram till. um að vísa máli þessu til stjórnarinnar. Jeg get ekki verið hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) sammála um það, þó að við sjeum annars sömu skoðunar í þessu máli. Jeg held, að rjett sje, úr því ræða hv. forsætisráðh. (J. M.) fór í þá átt, að reyna að breyta þessu fyrirkomulagi í sparnaðaráttina, að fara þá miðlunarleið, að vísa málinu til nefndar. Vil jeg stinga upp á, að því sje vísað til allsherjarnefndar. Vona jeg, að deildin fallist á það, þar sem þrír af flm. málsins eru í allsherjarnefnd og hafa þar því tögl og hagldir. Það gæti þá orðið til þess, að nefndin tæki ráð sín saman, og athugaði jafnframt þær sparnaðarbendingar, sem jeg og hæstv. forsætisráðh. (J. M) höfum gefið í þessu máli. Jeg geri þessa till. líka jafnframt vegna kurteisi gagnvart allsherjarnefnd, þar sem þrír af flm. frv. eiga sæti.

Hv. aðalflm. (E. A.) sagði, að þetta mál væri „collegialt“ þingmál. En jeg vil segja, að þá fari lítið fyrir „collegialitetinu“, þegar hv. flutningsmenn vilja loka munninum á samþingismönnum sínum með því að varna því, að það sje gefið út, sem þeir segja.

Í von um, að þessi till. mín um að vísa málinu til allsherjarnefndar verði samþ., og þá gefist tækifæri til að ræða þetta mál síðar, segi jeg ekki meira nú.