12.09.1919
Neðri deild: 62. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 491 í C-deild Alþingistíðinda. (3165)

149. mál, þingsköp Alþingis

Flm. (Einar Arnórsson):

Síðan jeg stóð upp síðast hefir ekki komið neitt nýtt fram, nema örlítið hjá háttv. þm. Stranda. (M. P.), og það, sem hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) sagði, að rjett mundi vera, að þetta mál væri rætt meðal þjóðarinnar. Kannast jeg við, að það er margt til í þessu, og ef það væri rjett, sem hv. þm. Dala. (B. J.) sagði, að meiri hl. þjóðarinnar mundi vera á móti þessu, þá væri ekki rjett að fara að spara. Jeg er nú ekki trúaður á, að þetta sje rjett hjá hv. þm. (B. J.). — Þá vil jeg svara hv. þm. Stranda. (M. P.) nokkru, ekki svo, að jeg ætli að fara að munnhöggvast við hann, en það var viðvíkjandi því, sem hann sagði, að sparnaðurinn yrði enginn við þetta, því menn mundu þá að eins hafa lengri greinargerðir og nefndarálit, og það mundi verða nærri eins dýrt og þótt ræðurnar væru prentaðar. Það er ekki sannað, að greinargerðir og nefndarálit yrðu neitt lengri, þótt hætt yrði við að prenta umr. Jeg sagði, að þær gætu orðið það, og þó að við værum báðir sammála um, að þær ættu að verða það, þá stöndum við jafnt að vígi, þótt ræðurnar væru ekki prentaðar. Svo er annað atriði, sem jeg vil minnast á, en hefi ekki minst á til þessa, og það er, að af prentun þingtíðindanna leiðir miklu meiri skrifstofukostnaður heldur en þótt þær væru að eins skrifaðar. Skrifstofustjóri þarf nú að hafa mann sjer til aðstoðar við prófarkalestur, en það þarf ekki, ef ræðurnar væru að eins skrifaðar, því að skrifararnir gætu skrifað þær á góðan pappír, og mætti svo geyma þær eins og þeir gengju frá þeim. — Mjer finst engin þörf á, að vísa málinu til nefndar, því það er svo einfalt og óbrotið. Og hvort heldur ætti að vísa því til allsherjarnefndar eða fjárhagsnefndar, skal jeg ekki deila um, en þó finst mjer, að það eigi fremur heima í fjárhagsnefnd heldur en í allsherjarnefnd. Hv. þm. Stranda. (M. P.) sagði, að jeg hefði sagt, að þetta væri „kollegialt“ gagnvart þm., og er það rjett, en svo fanst honum það vera „ókollegialt“ að vilja binda svona fyrir munninn á hv. þm. Það, sem jeg átti við með „kollegialt“, var, að þingið fjallaði eitt um þetta mál, á sama hátt og það t. d. velur starfsmenn sína, án þess að nokkur utan þings komi þar nærri. Annars sje jeg ekki neitt „ókollegialt“ við það, þótt minni hl. verði að beygja sig undir meiri hl., því það mætti þá eins vel segja, að það væri „ókollegialt“ að láta meiri hl. ráða í öðrum málum.