13.09.1919
Neðri deild: 63. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 555 í C-deild Alþingistíðinda. (3232)

137. mál, skógrækt

Frsm. (Sigurður Sigurðsson):

Jeg bjóst ekki við svona miklum umr. um þessa sjálfsögðu till. — Jeg neyðist til að fara nokkrum orðum um ýms atriði í ræðum andstæðinga minna.

Hv. þm. Dala. (B. J.) reið á vaðið og fann till. það til foráttu, að ráðist væri á einn mann, útlendan mann, danskan mann. Jeg verð að mótmæla því, að þessi till. verði skoðuð sem persónuleg árás á manninn; hjer er um málefni að ræða. En háttv. þm. (B. J.) hefir stundum ekki orðið flökurt, þótt minst væri á Danskinn; jeg veit ekki betur en að hv. þm. (B. J.) hafi sanna ánægju af að húðskamma hann. Háttv. þm. (B. J.) taldi ekki síður þörf á að rannsaka embættisrekstur annara, og nefndi hann í því sambandi starfsmenn Búnaðarfjelags Íslands. Það getur verið, og jeg er ekki að mæla á móti því. Sannleikurinn er sá, að of lítið er að því gert að hafa vakandi auga með starfsmönnum ríkisins og heimta, að störf þeirra sjeu rannsökuð, þegar eitthvað þykir fara aflaga. Það er annars einkennileg tilhneiging þetta, hjá mörgum, að vilja stöðugt sjá í gegnum fingur með opinberum starfsmönnum, og hefir það mjög gert vart við sig gagnvart þessari till. Hjer hefir hver af öðrum reynt að draga fjöður yfir það, sem að skógræktarstjóra er fundið.

Hv. þm. Barð. (H. K.) var líka að mæla á móti þessari till., og kom mjer það kynlega fyrir, af „jafnmætum manni“. Hann sagðist ekki hafa orðið var við almenna óánægju, og trúi jeg því, að hann segi það satt. En hann mun ekki kunnugur nema á Vesturlandi. Jeg gæti þó sagt honum tvær smásögur af ferðalagi skógræktarstjóra í Barðarstrandarsýslu, sem ekki benti á, að ánægjan með hann sje óblandin. En jeg hirði ekki að tilgreina slíkt hjer. Þá gat hv. þm. (H. K.) þess, að till. mundi undan mínum rifjum runnin og vildi setja það í samband við misklíð, sem verið hefir milli mín og skógræktarstjóra. Það hafa aldrei verið persónulegar deilur á milli okkar. En hitt er satt, að okkur hefir greint á um skógræktarmál. Deilan hefir staðið um mál, en ekki menn. Jeg frábið mjer alt tal um ofsóknir á hendur þessum manni. Annars hirði jeg ekki að svara hv. þm. (H. K.) fleira; það kom lítið málefninu við, sem hann sagði. En hann var góður viðtals og mjúkur á manninn að vanda, og hefi jeg ekkert undan honum að kvarta, hvað það snertir.

Hæstv. atvinnumálaráðherra (S. J.) kom hjer hlaupandi ofan úr Ed. og hóf mál sitt með yfirlýsingu um, að hann hefði töluvert til brunns að bera í þessu máli. En ekkert bar hann þó fram, sem sannaði það, og till. andmælti hann. Hann sagði, að stjórnarráðið væri ekki óánægt út af aðgerðum skógræktarstjóra, en þó kannaðist hann við, að töluverð óánægja væri út á við. Jeg hygg, að hún sje rjettmæt og á rökum bygð. Þá sagði hæstv. atvinnumálaráðherra (S. J.), að ferðareikningarnir væru ekki of háir. Það sagði jeg ekki heldur í þeim skilningi, að þeir væru ósanngjarnir, en hitt sagði jeg, að í ferðalög og laun færi of mikið fje, þegar öllu væri á botninn hvolft.

Menn hafa vikið að því, hvernig ætti að framkvæma þessa rannsókn, og hefir hv. samþm. minn (E. A.) gengið út frá nefnd. Jeg hefi ekki hugsað mjer þá aðferð. Jeg teldi rjettast, að stjórnin leitaði sjer aðstoðar sjerfróðs manns eða manna, en um nefnd verður þar varla að ræða.

Hæstv. atvinnumálaráðherra (S. J.) sagði, að till. væri ekki viðunandi, því hún beindist gegn ákveðnum manni. Jeg hefi talað um þetta áður, en vitanlega er ekki hægt að komast fram hjá manninum, þegar um framkvæmdir hans og aðgerðir er að ræða. Jeg býst við, að hæstv. atvinnumálaráðherra (S. J.) hafi orðið var við þetta í ráðherratíð sinni, að eigi hefir verið gengið fram hjá honum, þegar fundið hefir verið að aðgerðum stjórnarinnar. Jeg sje ekki, hvaða leið er hægt að fara án þess að koma við manninn sjálfan, og ef svo reynist, að framkvæmdirnar hafi verið á aðra leið en æskilegt þykir, þá er að skifta um mann. Það er ekki um það að ræða að kasta þessum manni út á klakann. Jeg býst við, að brjóstgóðir menn hjer í deildinni beri fram frv. um biðlaun eða eftirlaun honum til handa. Það getur oft verið tilvinnandi að setja menn á biðlaun, til að losna við þá úr embættum, eða frá sýslaninni.

Annars vil jeg í þessu sambandi vísa til þess, sem skrifað hefir verið um skógrækt nú á síðari árum. Það er ekki jeg, eða nefndin, sem hafa fundið upp þessar ásakanir. Ýmsir mætir og merkir menn hafa skrifað um þetta efni, og alstaðar hefir kveðið við sama tón. — Guðm. G. Bárðarson hefir skrifað tvær skýrar greinar um þetta efni í „Frey“, og Guðm. Davíðsson hefir einnig skrifað merkar greinar um skógrækt og skógræktarstjórann. — Þessar greinar sýna betur en nokkuð annað, að ekki er alt eins og á að vera.

Háttv. samþm. minn (E. A.) talaði hóflega um málið, en mintist þó á, að hjer ætti að svifta mann stöðu. Jeg hefi tekið það fram, að það er ekki meiningin að fara illa með hann. — Skógræktarstjórinn hefir ráðgert að halda áfram fleytingunni, þrátt fyrir það, að sýnt er og sannað, að hún er vitleysa ein. Um girðingarnar er það að segja, að lítið er gert til þess að halda þeim við eða auka við þær, enda er alt girðingarefni nú dýrt. Höfuðatriðið ætti að vera það, að reyna að halda við girðingum þeim, sem þegar eru. Það hefir verið borið fram, að maðurinn hafi mikinn áhuga á sínu starfi, og hefi jeg ekki mótmælt því. En landinu hefir ekki notast þessi áhugi vegna ókunnugleika mannsins og erfiðra skapsmuna. Þá sagði hv. þm. (E. A.), að menn vissu, hverju þeir sleptu, en ekki hvað þeir hreptu, og það er rjett. Við vitum, að við sleppum manni, sem hefir sýnt, að hann er miður hæfur í þessa stöðu, og auðvitað getum við altaf fengið betri mann í staðinn. Jeg gæti nefnt fimm menn, sem jeg tel fyllilega hæfa til starfans, en ætla ekki að nafngreina þá.

Það eru fleiri en jeg og nefndin, sem telja nauðsyn að rannsaka þetta mál. Hv. þm. S.-Þ. (P. J.) las upp kafla úr nál. fjárveitinganefndar á þingi 1917, og var þar kveðið svo sterkt að orði, að ekki væri annað fyrir en svifta manninn embætti, ef hann bætti ekki framferði sitt. Undir þetta hefir háttv. þm. Dala. (B. J.) skrifað. En nú er það vitanlegt, að skógræktarstjóri hefir haldið áfram uppteknum hætti.