13.09.1919
Neðri deild: 63. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 564 í C-deild Alþingistíðinda. (3238)

137. mál, skógrækt

Flm. (Sigurður Sigurðsson):

Hæstv. forsætisráðh. (J. M.) sagði, að till. þessi hefði átt að koma fram snemma á þingtímanum, svo að hægt hefði verið að skipa rannsóknarnefnd í þinginu í málinu. Mjer er ekki ljóst, hvað hæstv. forsætisráðherra (J. M.) meinar. Ætlast hann til, að alþingismenn hefðu verið skipaðir í nefndina, og að þeir, um þingtímann, hefðu átt að fara út um allar sveitir, til kynna sjer málavöxtu? Varla trúi jeg því. Slíkt er alger misskilningur á till., að ætlast sje til, að þannig sje að farið. Annars ætla jeg ekki að fara út í það, hvernig nefndin hugsar sjer framkvæmd till. Það hefi jeg áður gert.

Þá þarf jeg að snúa máli mínu að hv. þm. Dala. (B. J.). Hann var að tala um fleytinguna og sagði, að hún hefði gengið vel upp á síðkastið. En þess er að geta, að síðan hið upplesna guðspjall fjárveitinganefndar 1917 var undirskrifað hefir fleytingunni verið haldið áfram. Í sumar sem leið var skógarhögg í Fnjóskadal og viðnum fleytt niður Fnjóská og út í Eyjafjörð. Allmikið af þeim við munu einstakir menn hafa hirt; sumt kom hvergi fram, en að eins fáir baggar náðust af þeim, sem að fleytingunni stóðu, og voru fluttir með miklum kostnaði til Akureyrar, þar sem þeir seldust fyrir lítið verð. Varð af öllu þessu stór halli.

Það var ekki laust við, að hv. þm. (B. J.) kæmi fram með dylgjur í minn garð, og ljet skiljast, að það gæti orðið óþægilegt fyrir mig, ef starfsemi mín væri rannsökuð. Jeg skora á hv. þm. (B. J.) að bera fram skýrt og afdráttarlaust það, sem jeg á að hafa til saka unnið í ráðunautsstöðu minni, eða vera minni maður ella.

Hæstv. forsætisráðherra (J. M.) mintist á þá tvo menn, sem jeg sagði að fundið hefðu að störfum skógræktarstjórans, og vildi gera fremur lítið úr þekkingu þeirra á skógræktarmálinu. Guðmundur Bárðarson er náttúrufræðingur og hefir einkum lagt stund á jarðfræði og grasafræði, og hlýtur því að vera allfróður um skógrækt og skilyrði fyrir henni. Hann hefir og áreiðanlega meiri hæfileika en skógræktarstjórinn til að gegna skógræktarstjóraembættinu. Hinn maðurinn, Guðmundur Davíðsson, er skógfræðingur og hefir lagt stund á skógrækt.

Loks skal jeg geta þess, að nefndin getur fallist á dagskrá hv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) og væntir þess, að hún verði samþ., og vonar, að stjórnin leggist ekki undir höfuð að framfylgja því, sem í henni stendur.