19.09.1919
Neðri deild: 68. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 704 í C-deild Alþingistíðinda. (3294)

156. mál, bannmálið

Jörundur Brynjólfsson:

Jeg skal vera stuttorður. Menn hafa nú lengi hlýtt á umr. og eru farnir að þreytast, og ætla jeg því að eins að drepa á örfá atriði.

Jeg hygg það ekki ofmælt, að menn hafi ekki búist við þessari till. á þessu þingi. Eins og kunnugt er, eru bannlögin orðin til fyrir vilja þjóðarinnar. Það var gengið til atkvæða um það, hvort aðflutning á vinum skyldi banna með lögum, og varð meiri hl. þjóðarinnar því fylgjandi; samkvæmt þessu eru lögin sett. Jeg hygg, að síðan lögin komust til framkvæmda hafi ekkert það gerst, sem verðskuldaði, að gengið væri til atkvæða aftur nú þegar. Jeg veit ekki annað en að mikill meiri hl. þjóðarinnar hafi verið á verði, þegar skerða hefir átt bannlögin. Andstæðingar þeirra hafa gert mikið til að ræna þau fylgi, en lítið orðið ágengt. Þeir hjeldu úti blaði um tíma, en það var lítið keypt og enn minna lesið, og var það ekki af öðru en því, að menn gátu ekki felt sig við þær skoðanir, sem þar komu fram. Andbanningar settu upp skrifstofu til að flýta fyrir afnámi bannlaganna, og mun hún hafa staðið skamma stund og lítið orðið ágengt. Þá má á það minnast, að árið 1917, þegar kom fram frv. um að bæta lögin, þá söfnuðu meðhaldsmenn laganna áskriftum. Mjer er kunnugt um, að eigi var byrjað fyr en áliðið var vors, en á stuttum tíma söfnuðust á 2. þúsund undirskriftir hjer í Reykjavík einni. Andbanningar voru þá líka að safna undirskriftum um að nema lögin úr gildi. Þeir hafa aldrei birt, hvað marga þeir fengu á sitt mál. Jeg býst við, að þeir hafi ekki verið margir; annars mundu þeir hafa birt það. Það eru þannig sterkar líkur til, að lögin eigi ekki minni ítök í þjóðinni nú en bannhugmyndin átti 1908; jafnvel meiri.

Andbanningar halda því fram, að óvenjulegir tímar hafi verið; skipaferðir strjálar og eftirlit því auðvelt. Þeir hafa getið þess til, að nú muni lögin meira brotin, þegar siglingar og samgöngur aukast. Jeg skal engu um þetta spá, en jeg sje ekki betur en andbanningar megi vera rólegir og bíða nokkur ár, því þá á reynslan að vera búin að færa öllum heim sanninn um það, hvort bannlögin sjeu óhæf eða ekki. Þeir ættu því að kjósa, að beðið væri þar til fullkomin reynsla væri fengin. Þess vegna er ekki ástæða til að ganga til atkv. nú.

Það er líka annað, sem ætti að hvetja okkur til að bíða. Bannhreyfingin er að magnast í löndunum alt í kring, og stærstu og merkustu þjóðir heimsins eru farnar að leggja hindranir á leið áfengisnautnarinnar, og það jafnvel þótt það skerði stórkostlega hagsmuni þeirra, hvað atvinnu snertir. Það sýnist því óviðfeldið, að við gerum nokkuð í þá átt, að losa um böndin, meðan við vitum ekki, hver niðurstaðan verður annarsstaðar. Það lítur út sem undanhald af hálfu Alþingis, ef við samþ. nú þessa till., og það hefir Alþingi engan rjett á að sýna.

Það getur hver haft sína skoðun um það, hvort þingið eigi að skera úr þessu án þess að leita álits þjóðarinnar, þó að jeg telji það alls ekki rjett, en jeg teldi viðfeldnara, að þjóðin ljeti í ljós óskir um að greið atkv. um þetta mál, áður en við förum að spyrja hana til ráða. Mjer sýnist eðlilegt, að vilji menn breyta bannlögunum, þá sje byrjað meðal kjósendanna, og að Alþingi taki að því búnu ákvörðun, eftir því, hvernig undirtektirnar verða.

Ef andstæðingar þessara laga eru trúaðir á sín eigin orð, þá ættu þeir að vera fúsir á að bíða meðan þetta fer fram.

Jeg segi fyrir mig, og hið sama hygg jeg að hver og einn meðhaldsmaður þessara laga muni segja, að ef lögin ná ekki tilgangi sínum, og eins mikið er drukkið eins og áður, þá teldi jeg rjett, að lögin væru numin úr gildi.

Jeg ætla ekki að fara mikið út í ræðu hv. þm. N.-Ísf. (S. St.); hún var hófleg og stillilega flutt. Og þó að hv. þm. (S. St.) færi út í margt og kæmi víða við, ætla jeg ekki að fara að ræða um það, af þeirri sök, að jeg tel, að till. hefði alls ekki átt að koma fram, enda vænti jeg þess, að hún hljóti ekki samþ. hv. deildar. — Jeg skal þó lauslega víkja að einum fjórum atriðum, sem hv. þm. (S. St.) drap á. Hann mintist á, hve mjög innflutningur áfengis inn í landið hefði aukist hin síðari ár. Ekki verður því neitað, og er það sorglegur vottur um breyting til hins verra. En þetta kemur meðhaldsmönnum laganna eiginlega ekki á óvart. Margir þeirra voru á móti því, að læknar hefðu heimild til að láta úti áfengi eftir lyfseðlum; þeir voru hræddir um, að svo mundi fara, sem nú er í ljós komið. Það má gera ráð fyrir, að megnið af því áfengi, sem flutt er á löglegan hátt inn í landið, sje haft til neyslu, og það þá samkvæmt lyfseðlum frá læknum. Það er raunalegt, að læknar vorir — að vísu ekki nema tiltölulega fáir þó — skuli láta úti svo mikið af áfengi; þeir ættu þó manna best að vita, hver áhrif áfengi hefir á heilsu manna og siðferði.

Hv. þm. (S. St.) drap á, að ef ríkið tæki að sjer einkasölu áfengis, gæti ríkið fengið í sinn sjóð svo miljónum króna skifti á fáum árum í ágóða af þeirri verslun, og jafnframt lýsti hann því allátakanlega, hvernig þeir, sem versluðu óleyfilega með áfengi, ristu blóðörn á bak þeirra, sem þeir seldu vínföng. En annaðhvort gerir hann ráð fyrir, að Íslendingar neyti mikils áfengis, eða hann ætlast til, að landsstjórnin hafi líka aðferð við verslun sína sem áfengisprangararnir. Hv. þm. (S. St.) mun ekki ganga þess dulinn, að þótt ríkið taki áfengisverslunina í sínar hendur, þá muni þeir, sem haft hafa áfengissmyglun að atvinnu, ekki leggja árar í bát; þá verður enn verra að hafa eftirlit með þeim en nú. Vera kann að vísu, að þeir geti ekki okrað alveg eins á áfenginu eins og nú. Eftir lýsingu hv. þm. (S. St.) á ástandinu hjer í bæ verð jeg að segja, að ef hann hefir haft sögur sínar eftir fulláreiðanlegum heimildum, þá veit hann meira um drykkjuskap hjer en jeg, og þá er meira um drykkjuskap hjer en mig grunaði.

Ef fíkn einstakra manna í áfengi er svo mikil, að þeir láti prangara reita sig inn að skyrtunni fyrir áfengi, þá má geta nærri, hve miklu meira slíkir menn mundu drekka, ef þeir fengju vínföngin ódýrari, því að óhætt mun að gera ráð fyrir, að þeir mundu verja eins miklu fje til áfengiskaupanna eftir sem áður. Það er alkunnugt, að þegar drykkjuskaparástríðan er orðin sterk, þá er lítt gætt hófs í nautn áfengis og meðferð fjár.

Mjer mundi þykja það óskemtilegar tekjur fyrir ríkið, ef það mokaði í sinn sjóð stórum gróða af áfengissölu. Andmælendur mínir gætu svarað mjer því, að ríkið fái nú nokkrar tekjur af áfengi. Satt er það, en frá mínu sjónarmiði er það eitt hið óviðfeldnasta, að ríkið skuli afla sjer tekna af áfengi.

Hv. þm. (S. St.) sagði, að þeir væru heiðraðir, sem þessi lög brytu. Jeg veit ekki, hvað almenningsálitið kann að vera orðið rotið og spilt. En munu það ekki vera þeir einir, sem ekki eru velviljaðir lögum þessum, er hafa slíka menn í heiðri, og standa lögbrjótunum ekki fjarri? Jeg skil annars ekki í því, hvernig þeim mönnum er varið, sem heiðra smyglara og atvinnuveg þeirra. Annars finst mjer ræða háttv. þm. (S. St.) einhver hin besta lögeggjan, sem borin hefir verið fram á þingi um það, hvílík nauðsyn það sje að grípa til hinna öflugustu varnarráða til að vernda þjóðfjelagið gegn áfengisnautninni, sem hann lýsti svo átakanlega. — Bannhreyfing sú, sem gengur yfir heiminn, gengur öll í þá átt, að losa menn við þessa ólyfjan, áfengið, en ekki, eins og hjer er stefnt að, að gera aðganginn að henni greiðari.

Hv. þm. (S. St.) taldi áfengisnautnina þjóðarböl, og um það erum við sammála. En hví eigum við þá að fara að gefa undir fótinn með að halda við þessu þjóðarböli? Jeg tel það miklu nær og sæmilegra hlutverk fyrir Alþingi, að ýta við þjóðinni og hvetja hana til að gæta laganna betur. Slíkt stæði í beinu sambandi við skoðun hv. þm. (S. St.) á málinu og það, sem hann talaði um áfengisnautnina.

Jeg þekki líklega ekki eins vel til um áfengisnautnina hjer eins og hv. þm. (S. St.), eftir ræðu hans að dæma. En eftir því, sem jeg veit best til, verð jeg þó að ætla, að miklu minna sje neytt hjer af áfengi nú en áður en bannlögin komust á. Þeir, sem lengi hafa fengist við fátækramál hjer í bæ, segja, að ástandið meðal fátæklinga sje betra nú en áður, og þakka bannlögunum það ekki að litlu leyti. Hefir þó aðstaða Reykjavíkur að undanförnu verið talsvert betri að ná í vín en flestra annara staða hjer á landi. Uppi til sveita sjest nú varla nokkurn tíma ölvaður maður. Jeg hygg, að meiri hl. þjóðarinnar mundi bera fram óskir í þá átt, að allir og einkum þó lagaverðirnir gerðu sitt ítrasta til að halda uppi heiðri þessara laga. Þannig mundu óskir þjóðarinnar falla, ef til hennar kasta kæmi.

Jeg skal ekki fara út í efni till., eða brtt. við hana. Að eins nefni jeg það, að mjer finst sjálfsagt að samþ. brtt. hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.). Ef till. sjálf verður samþ., þá nær engri átt að afgreiða aðra eins till. og þessa að eins frá annari deild þingsins.

En jeg vænti þess, að allir, sem hafa líka skoðun á málinu sem jeg, greiði atkv. móti till., svo að hún komist ekki hjeðan úr deildinni.