21.07.1919
Efri deild: 12. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 730 í C-deild Alþingistíðinda. (3310)

51. mál, bygging, ábúð og úttekt jarða

Frsm. (Sigurjón Friðjónsson):

Jeg býst við, að hv. þm. hafi athugað frv. það, er hjer liggur fyrir, en mjer finst samt rjettara að minnast sjerstaklega á hinar einstöku greinar þess. — 1. gr. frv. er nokkurn veginn orðrjett 2. gr. í ábúðarlögunum frá 1884. Eina breytingin er ákvæðið um, að ekkja skuli halda ábúðarrjetti manns síns, eins þó að hún giftist aftur, og er þessi breyting að eins gerð til að koma á fullu jafnrjetti milli karls og konu í þessu efni.

2. gr. kemur í stað 6. gr. í gömlu ábúðarlögunum. Hjer er gerð sú breyting, að landeigandi skal skyldur að láta jörðinni fylgja öll hús, sem nauðsynleg eru til ábúðar á henni. Mörgum kann að þykja, að hjer sje landeigendum lögð mikil byrði á herðar. En nú er ástandið þannig, að leiguliðar fá oft alveg óviðunandi hús með jörðunum og fá sínar eigin húsabyggingar litlu eða engu hættar, er þeir flytja. — Verð jeg að líta svo á, að leiguliðar eigi rjett á að njóta aðgerða sinna á jörðunum, og að á það beri að leggja talsverða áherslu.

3. gr. kemur aðallega í stað 20. gr. í núgildandi lögum, og eru þar litlar breytingar gerðar aðrar en þær, sem koma fram í 6. gr. — Ein aðalbreytingin er í 4. gr., sem kemur í stað 16. og 7. gr. núgildandi laga. Í frv. er ætlast til, að skemdir af völdum náttúrunnar, eða eldsvoða, er leiguliða verður eigi kent um, komi eingöngu niður á landeiganda. Virðist vera eðlilegast, að hver beri sjálfur það tjón, er hlýst af skemdum á eigin eign.

5. gr. er ný að því leyti, að hún er eigi til í núgildandi lögum, en hún er tekin upp úr frv., er borið var fram í hv. Nd. árið 1917. Aðalatriðið er að skilja að fasteign og lausafjáreign, þannig, að ábúandinn eigi alt lausafje á jörðinni. Eins og nú er ástatt, eru kúgildin ábúandanum oft til mikilla þyngsla. Nefndinni þótti hjer gengið of nærri rjetti landeigenda, og kom fram með brtt. á þgskj. 116. Dregur hún að vísu mikið úr greininni, en gerir hana þó að mínu áliti ekki alveg ónýta. — Einkum mun hún geta orðið leiguliðum á landssjóðsjörðum að liði.

6. gr. kemur í stað niðurlags 20. gr. í núgildandi lögum. Eru þar reglur um mat á jörðinni, er leiguliði hættir ábúð, og eru þær að mun skýrari og að minni hyggju rjettlátari í garð leiguliða en núgildandi ákvæði.

Yfirleitt er tilgangur frv. sá, að tryggja leiguliða endurgjald fyrir þær umbætur, er hann gerir á ábúðarjörð sinni. Hefi jeg lagt aðaláhersluna á þetta atriði, og vona jeg, að hv. deild sje mjer samdóma í því.

Vil jeg svo að lokum mæla sem best með, að frv. þetta nái fram að ganga.