22.07.1919
Efri deild: 13. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 741 í C-deild Alþingistíðinda. (3317)

51. mál, bygging, ábúð og úttekt jarða

Eggert Pálsson:

Jeg hefi ekki fylgst með í umr. um frv. þetta, vegna fjarveru minnar. En þar sem það er að mörgu leyti merkilegt, vil jeg ekki láta hjá líða að lýsa afstöðu minni til þess, áður en gengið verður til atkv.

Á undanfarandi þingum hefir verið reynt að breyta ábúðarlöggjöfinni í líka átt og hjer er farið fram á, en tilraunirnar hafa altaf strandað, sem vænta má, því hjer er um mikið vandamál að ræða.

Þó að tilgangur hv. flm. (S. F.) sje góður, er ekki við því að búast, að honum hafi tekist að rata í þessum efnum hina heppilegustu leið, og allra síst þá leið, er gerði alla ánægða. Einkum er það þó eitt aðalákvæði frv., sem gerir mjer ókleift að vera því fylgjandi. — Leiguliða er ekki að eins gert að skyldu að halda við jarðarhúsum þeim, sem nú eru á jörðum, heldur er gert ráð fyrir, að þau verði aukin allmikið, og leiguliðanum svo gert að skyldu að halda öllu vel og forsvaranlega við. Og væntir mig, að sú breyting muni mörgum fleiri ekki finnast neitt til bóta fyrir sig, því auk aukinnar viðhaldsskyldu yrði leiguliðinn vitanlega að greiða vexti af fje því, sem landsdrottinn legði á jarðarhúsin. Mín skoðun er sú, að jarðarhús ættu helst engin að vera. Reynslan er, að hús, sem fylgja jörðum, komast altaf í niðurníðslu. Hafi t. d. baðstofa fylgt jörð og leiguliði bætt hana að verulegum mun, mun hann oftast fá gömlu baðstofuna virta til peninga eða láta einhvern ljelegan kofaræfil upp í gömlu baðstofuna, en selja nýju baðstofuna viðtakanda, eða rífa og flytja með sjer. Jeg geri ráð fyrir, að bæjarhúsin yrðu til lítils sóma eða þæginda til langframa, þótt landsdrottnum væri nú gert að skyldu að byggja þau upp að nýju, heldur mundi alt sækja aftur í sama horfið og verið hefir í þessum efnum að undanförnu.

Jarðarhús eru tvennskonar, sem sje íbúðarhús og peningshús.

Ef við fyrst lítum á íbúðarhúsin, verður það fljótt fyrir okkur, að íbúðarhúsaþörf bænda getur verið og er mjög mismunandi. Hugsum okkur, að ómagamaður búi á jörð; hann þarf húsnæði fyrir 15, eða svo, manns, og kemur því upp á kostnað jarðeiganda eða jarðarinnar, hvort sem rjettara er, en hann þarf hæfil. stórt íbúðarhús fyrir alt þetta fólk. Svo flytur hann burt, en í staðinn kemur ómagalaus maður, er ekki hefir og þarfnast ekki fleira fólks en svo sem 5 eða 6 manns vinnandi. Jeg gæti nú trúað, að seinni bóndanun fyndist hann hafa tekið við óþörfum bagga, að taka við til eftirgjalds og viðhalds íbúðarhúsinu, sem hinn mannmargi fyrirrennari hans þóttist þurfa með. Honum mundi það ekki nauðsynlegt, heldur þvert á móti. Annars eru og verða æfinlega skiftar skoðanir um, hvað hús sjeu „nauðsynleg“ við ábúð á jörðum, sbr. 3. gr. Eins og þetta einfalda dæmi, sem jeg tók, sýnir, er ómögulegt að segja um, hve mikil íbúðarhús sjeu nauðsynleg, því það fer alt eftir kringumstæðum þess, er í það og það skiftið býr á jörðinni.

Þá skulum við virða fyrir okkur peningshúsin. Þegar um þau er að ræða, þá er á það að líta, að menn breyta oft algerlega um búnaðaraðferð. Jeg get tekið dæmi af mjer sjálfum. Fyrst í mínum búskap var fjárræktin aðalatriðið. Þá hafði jeg 600–700 kindur. Nú hefi jeg snúið því upp í kúabú, og hefi enga kindina. Menn geta gert sjer í hugarlund, hvaða aukaskattur það hefði verið á mjer að þurfa að viðhalda fjárhúsum fyrir 600–700 fjár, þrátt fyrir breytta búnaðaraðferð. Nú geta menn einmitt búist við algerðri breytingu á búnaðarháttum, að minsta kosti hjer á Suðurlandi. Þegar járnbrautin kemur — og hún kemur, ef ekki í vorri tíð, þá samt síðar — breytast fjárbúin í kúabú. Þá væri ilt í efni, ef lögboðið væri að halda við öllum fjárhúsum, sem staðið hafa, eða álitin hafa verið hæfileg á jörðum fram á þessa daga. Vegna þessara breytingamöguleika á búskaparlagi, er varhugavert að setja nokkur föst ákvæði um nokkur peningshús á jörðum. Eðlilegasta leiðin út úr þessum ógöngum er, að landið sjálft sje bygt án allra jarðarhúsa. En hjer er farið fram á, ekki að eins að láta þau jarðarhús haldast, sem nú eru á jörðum, heldur einnig auka þau og fjölga þeim að miklum mun. Og það er einkum þetta atriði, sem gerir mjer ókleift að fylgja fram komnu frv.

Af öðrum ákvæðum frv. vildi jeg nefna ákvæði 5. gr., um heimild leiguliða til að leysa til sín innstæðukúgildi, gegn jafngildi í húsum eða jarðarbótum. Það liggur í augum uppi, að þetta væri ekki vel ráðið. Leiguliði gæti bygt stærri hús en nokkur þörf væri fyrir á jörðinni, og látið þau svo ganga upp í kúgildin til að gera sjer verð úr þeim. En um þetta atriði skal jeg ekki fara fleiri orðum, þar sem hv. nefnd hefir bætt hjer úr skák og flutt brtt. þess efnis, að samþ. landsdrottins þurfi til.

Rjett virðist, að frv. fái alla þá meðferð í deildinni, sem sæmilega megi telja, þar sem háttv. flm. (S. F.) hefir sýnt því svo mikla rækt og umhyggju. Það væri heldur ekki sanngjarnt að fella það frá 3. umr., þar sem tveir þm. eru fjarstaddir af fundi. Þess vegna mun jeg greiða frv. atkv. til næstu umr.