22.07.1919
Efri deild: 13. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 744 í C-deild Alþingistíðinda. (3318)

51. mál, bygging, ábúð og úttekt jarða

Frsm. (Sigurjón Friðjónsson):

Út af ummælum hv. 1. þm. Rang. (E. P.) skal jeg geta þess, að það er auðvitað svo um þessi lög sem önnur, að þær kringumstæður eru hugsanlegar, sem lögin ná ekki fullkomlega til, og verður því að leysa úr með tilliti til anda laganna. Þm. (E. P.) kvað það reynslu sína, að jarðarhús hafi gengið úr sjer í höndum leiguliða. Mín reynsla er gagnstæð. Leiguliðar hafa yfirleitt stækkað og bætt jarðarhúsin, þar sem jeg þekki til, en mist svo umbæturnar endurgjaldslaust, eða endurgjaldslitið, við brottför af jörðunum. En hugsum okkur það, að leiguliði hafi bygt meiri hús á jörð sinni en hún ber, hvort sem það eru íveru- eða peningshús. Þá hlýtur það auðvitað að verða samningamál milli hans, viðtakanda og lánsdrottins, hve mikið hann fær fyrir húsin. Vilji viðtakandi ekki nýta þau nema til rifs, er auðvitað ekki hægt að neyða landsdrottin til að kaupa þau hærra verði en honum sýnist. Málið verður þá mjög líkt, hvort sem þessi lög gilda eða þau gömlu. Það verður samkomulagsmál milli hinna þriggja, er nefndir voru. En ef húsin eru jörðinni að gagni, er fráfarandi betur trygður en áður, eins og vera ber. Það er ekki nema sjálfsögð sanngirni, að fráfarandi fái þá verðhækkun, sem honum er að þakka.