18.08.1919
Neðri deild: 38. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 781 í C-deild Alþingistíðinda. (3339)

91. mál, ullarmat

Þorleifur Jónsson:

Mál þetta hefir nú verið mikið rætt, og skal jeg því ekki vera langorður.

Jeg vildi að eins taka það fram, að mjer er ekki kunnugt um það, að ullarmatslögin frá 1915 hafi reynst illa. Og hafi matið ekki náð tilgangi sínum, þá mun það ekki vera lögunum að kenna, heldur því, að illa hafi tekist að velja mennina.

Annars hefi jeg ekki heyrt neitt um það, að matið hafi tekist illa; að minsta kosti er engin óánægja yfir því í Austfirðingafjórðungi, þar sem jeg þekki til.

Aðalbreytingin, sem frv. fer fram á er sú, að skipaður verði einn yfirmatsmaður í stað fjögra. En ekki get jeg sjeð, hvaða bót væri í því.

Það hefir verið sagt, að það ætti að vera til þess að auka samræmið í matinu.

Það getur ef til vill hugsast, að svo yrði, en langan tíma mundi það taka fyrir einn mann að koma því samræmi á. Hann þarf langan tíma til að fara um alt landið og setja matsmenn inn í þá starfsemi þeirra.

En nú sje jeg ekki betur en yfirmatsmenn þeir, sem nú eru, gætu unnið að því sama, með því að bera starf sitt saman, þótt fjórir sjeu.

Þessi breyting er því að mínu áliti ekki til neinna bóta. Jeg held jafnvel, að hún gæti orðið til þess, að ósamræmi yrði meira eftir en áður.

Brtt. háttv. nefndar fara hjer þvert á móti, þar sem hún vill halda þessum fjórum mönnum.

Þá vill hún breyta þannig til, að sett verði sitt merkið á ullina fyrir hvern fjórðung. En það held jeg að hafi enga þýðingu. Jeg skil ekki, að ullin seljist betur fyrir það.

Kaupendunum er innan handar að vita, hvaðan af landinu ullin er, þar sem hún er altaf merkt kaupmannsmerki.

Það er líka næsta óeðlilegt að setja slík ákvæði inn í löggjöfina; svo mundi að minsta kosti þykja ef setja ætti slíkt inn í fiskimatslögin.

Jeg held því, að brtt. bæti ekki heldur.

Þá hefir verið talað mikið um það, að auk verkunar þurfi að taka ullargæðin til greina við matið. En þá fer matið að verða nokkuð flókið.

Gæðin eru mjög mismunandi. Þá þarf mann með sjerþekkingu til matsins. En mjer vitanlega hefir enginn Íslendingur sjerþekkingu á því, hvað útlendar ullarverksmiðjur heimta, hvað ullargæði snertir.

Það hefir verið sagt, að norðlensk ull sje best; en jeg hygg, að hún sje innbyrðis mjög misjöfn. Jeg tel það víst, að eyfirsk ull sje verri en þingeysk, en það atriði fer mjög eftir landslagi og ef til vill veðráttu.

Frá Möðrudal hefir verið flutt fje af þingeysku kyni til Skaftafellssýslu, og hefir reynslan orðið sú, að holdafar hefir batnað, en aftur á móti virðist ull af því fje ekki betri en af skaftfellsku fje. Jeg held því, að vandasamt verði að eiga við ullargæðin, ef taka á tillit til þeirra við matið. Jeg sje því ekki, að frumv. nje brtt. geti orðið til neinna bóta, og ekki hafa umr. þessar heldur sýnt það, að þörf sje á að breyta lögunum.

Það gæti verið rjett að hækka kaup matsmanna, en að því er lítið gert bæði í frv. og brtt. nefndarinnar.

Skal jeg svo ekki fara fleiri orðum um mál þetta.