23.08.1919
Neðri deild: 43. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 811 í C-deild Alþingistíðinda. (3369)

110. mál, sala á spildu kirkjujarðarinnar Fjósa í Laxárdalshreppi

Flm. Bjarni Jónsson):

Jeg fæ ekki sjeð þann háska, sem af því getur stafað, að læknir fái að eiga kýrfóðursblett. (P. J.: Hafa). Þeir mega gjarnan eiga hann. Það er ekki eins og verið sje að taka blóð af heilu holdi, þótt þeim sjeu seldir óræktaðir blettir. Það er af nógu að taka; nógu margir verða þeir eftir, óræktuðu blettirnir á landi voru. Jeg er ekki spámaður, og þess vegna ekki von, að jeg fái eygt í anda þann straum af læknum, sem biðja um bletti. Hjer er um mýrarblett að ræða, sem lítill skaði er að missa, en nauðsynlegt fyrir lækninn að fá. Jeg hefi bent á áður, að það er lífsnauðsyn að hafa ráð á hentugri fæðu fyrir sjúklinga sína, og þá ekki síst mjólk. Þessir læknar myndu ekki svo margir. Margir búa í sveit, og þurfa því ekki á þessu halda. Aðrir búa í kauptúnum, þar sem næga mjólk er að fá, og þeir þurfa ekki heldur á slíkum bletti að halda. Það er ekki um það að ræða hjer, að líma í sundur heilar jarðir. Þetta er hluti af landi kauptúnsins, sem er því algerlega notlaus. Sumir vilja ef til vill láta líta svo út, sem þeir sjái langt fram í tímann, og hugsa um stórborgina, sem rís upp þarna í Hvammsfirði, við hafnleysuna og fátækar sveitir. Jeg get ekki sjeð þær sýnir og tel þess vegna enga ástæðu til að óttast, að kauptúnið þurfi síðar meir á þessu landi að halda til byggingar. Nú er búið að rífa niður annað verslunarhúsið, en hitt er verið að flytja í burtu, og eftir er hjallur einn, sem kaupfjelagið á. Nokkrir menn eru þarna búsettir, og er ekki að vita, hve lengi það verður. Það, sem sennilega helst lengst við lýði, verður læknisbústaðurinn og sjúkraskýlið, og er þá nauðsynlegt, að bletturinn verði ræktaður. Jeg fæ því ekki sjeð, hvað hægt verður að hafa á móti þessu. Síst get jeg skilið það af þessum hv. þm., sem hafa neitað stjórninni um frestun á sölu þjóðjarða. Hún hefir farið fram á það, meðan þessi glundroði og þetta hringl var á öllu verðmæti, en hv. þm. hafa ekki orðið við óskum hennar, og væri það því einkennilegt, ef þeir snerust á móti þessu frv. Jeg skil ekki, hvernig þeir færu að vera sjálfum sjer samkvæmir, ef þeir neituðu nú um sölu á bletti, hrjóstrugum skika, sem ekkert hefir verið gert á, þangað til Páll kaupmaður Ólafsson fór að reyna að slá sinuna og fúagrasið, er á honum óx. Þetta er þríhyrna, sem nú er verðlaus, en er eign fyrir þann, sem ætti, ef ræktuð yrði.