22.07.1919
Neðri deild: 13. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 815 í C-deild Alþingistíðinda. (3376)

59. mál, bann gegn refaeldi

Magnús Pjetursson:

Jeg kann ekki við annað en að segja nokkur orð um þetta nýmæli, sem hjer liggur fyrir. — Eins og hv. flm. (B. St.) gat um í ræðu sinni, má renna grun í, til hvers „refirnir eru skornir“. Jeg held, að þó aldrei nema meiningin kunni að vera góð með þessu frv., þá komi það ekki að tilætluðu gagni. Það stendur í fyrirsögninni fyrir frv.: „bann gegn refarækt.“ Mjer finst, að það hefði átt að sleppa þessu „bann gegn“, og láta frv. heita „frv. um refarækt“; þá hefði fyrirsögnin verið í samræmi við efnið, því að jeg geri ráð fyrir, að ef frv. þetta verður að lögum, mundi það verða til þess að fjölga refum í landinu.

Það, sem gefur tilefni til, að þetta frv. er fram komið, er, að sumir menn hafa haft það fyrir atvinnu að ala upp yrðlinga fram á veturinn og drepa þá svo. Þessir menn hafa boðið geysihátt verð fyrir yrðlinga á vorin, og því hafa grenjaskytturnar lagt mikið kapp á að ná þeim til að selja. Hins vegar munu menn kannast við það, að það hefir verið miklum erfiðleikum bundið að fá menn til að liggja á greni. Það er mjög ilt verk, og þar að auki víðast illa borgað. Refaeldið og það, að yrðlingarnir voru gerðir að verslunarvöru, hefir því gert það að verkum, að menn hafa fremur fengist til grenjavinslu og því orðið til þess að fækka refum í landinu.

Það er líka aðgætandi, að þó að menn hafi farið á greni, og þykist hafa fundið yrðlinga og drepið, þá er lítil trygging fyrir, að svo hafi verið í raun og veru, ef þeir eru ekki sýndir. Eitthvað gæti hæglega hafa sloppið af þeim og orðið að tjóni síðar meir. — Ef jeg hefði þekt háttv. flutningsm. frv. að því, að vera mikla veiðimenn, sem færu iðulega á refaveiðar á vetrum, hefði jeg getað giskað á, að þeir bæru þetta fram til þess, að geta stundað þessa íþrótt með sem bestum árangri, því líkur eru til, að þeir fái meira úr að moða, ef frv. nær fram að ganga. Jeg hefi sem sje heyrt getið um menn, sem hafa látið fyrir farast að segja til um greni eða vinna yrðlinga, til þess fremur að geta drepið tófuna á vetrum, og líkt mundi mega ætla um frv.flytjendur, ef þeir væru kunnir veiðimenn. Það kann að mega segja með sanni, að nokkur hætta geti verið, að tófur sleppi úr eldi. En jeg hygg, að það sje ekki þeim mun meiri hætta á því, þó að yrðlingarnir sjeu fluttir á hentuga staði til eldis, heldur en hin, að yrðlingar sleppi hjá skotmönnmn á grenjum, af þeirri ástæðu, að þá vantar hvötina, hagnaðarvonina, síður en svo. Jeg efast því mjög um, að tilganginum verði náð með því að banna refaeldi. Þá yrði að setja ákvæði með lögum um að veita verðlaun fyrir að drepa yrðlinga, t. d. 15– 20 kr., eins og markaðsverð er nú. Mjer er kunnugt um, að í mínu hjeraði hafa stundum verið aldar og drepnar alt að 200 tófur á ári. Það er þó áreiðanlegt, að svo mikið hefir verið drepið, að þessar tófur eru drepnar, en jeg er ekki viss um jafngóðan árangur, ef menn hefðu ekki sókst eftir yrðlingum til uppeldis. Mundu þá margar af þeim tófum hafa lifað. Mjer finst, að það hefði farið betur á því, ef hv. flm., sem hugðu sig hafa fundið bót á þessu meini, hefðu athugað þetta betur. Það er í sjálfu sjer enginn vafi á, að hægt og mjög nauðsynlegt er að hefta fjölgun refa, en þetta er ekki ráðið til þess.

Háttv. flm. (B. St.) gat um stefnuvarg, sem hefði komið fram á Austurlandi. Dettur hv. þm. (B. St.) í hug, að það hafi verið refir, sem sloppið hafi á land úr eyjum á Breiðafirði. Hitt er víst orsökin, og mjög eðlilegt, að þar, sem refum hafði fækkað að mun, voru menn ekki eins áhugasamir að eyða þeim, er þeir hættu að gera vart við sig. Þeir hafa þannig geta alist upp og fjölgað á fjöllum uppi, án þess menn vissu, og komið svo fram í harðæri og ruðst til sjávar til að leita sjer matar.

Jeg vildi mega skjóta því til háttv. flutningsmanna, hvort þeim hafi ekki dottið í hug, að refir gætu kornið annarsstaðar að en hjer af landi. Það er að vísu ekki hægt að sanna, að tófur hafi komið á ísum en það er heldur ekki hægt að sanna hið gagnstæða. En menn þykjast hafa tekið eftir því, að eftir mestu ísaár hafi meira borið á tófum hjer en ella. Væri það t. d. óhugsandi, að þessi vargur, sem kom á Austfirði, hafi komið norðan af Melrakkasljettu, og þangað á ís frá Grænlandi, en ekki frá Vesturlandi eða Breiðafirði.

Jeg vil að endingu geta þess, að jeg held, að of mikið sje gert úr því, hvað sleppi úr eldi. Jeg skal kannast við, að það geti komið fyrir. En af því jeg er málinu kunnugur, vil jeg halda fram, að þó ís komi milli lands og eyja, slíkt er að vísu afarsjaldgæft, þá sjeu miklu minni brögð að þessu en orð er á gert; skal jeg færa ofurlitlar ástæður fyrir þessu.

Allir kannast við það úr biblíunni, „að refir eiga holur“, og svo mun einnig vera í eyjum þeim, sem þeir eru aldir í. Þó þeir á nóttum hverfi frá holum sínum til fanga, þá hverfa þeir oftast að morgni til hola sinna.

Þetta er hægt að sanna, því sagt er að borið hafi við, að slíkar flökkutófur hafi náðst á landi og þekst af marki því, sem á þeim var, en síðar sjest aftur í eyjunum. Sjálfur get jeg ekki með þetta farið öðruvísi en af annara sögusögn.

En það er ekki nema eðlilegt, að strangari reglur væru settar um refaeldi, og látið miklu varða, ef ógætilega er með farið, enda er það einmitt sú stefna, sem tekin hefir verið í Strandasýslu, og er jeg viss um, að hvergi eru til strangar reglur um þetta, þar sem mönnum er gert það að skyldu að merkja allar sínar tófur og skila þeim með tölu; ella varðar það stórsektum o. fl. því um líkt.

En það gefur að skilja, að enginn gerir það að gamni sínu að sleppa tófunum, þar sem þær geta verið í alt að fimmfalt hærra verði en ær, og eru bændur þó þektir að því, að vilja síður missa af rollum sínum, eins og vonlegt er. En mundu þeir þá ekki því fremur reyna að passa þessa gripi sína.

Jeg held því, að hv. flm. (B. St.) og nefndin, sem væntanlega fær málið til meðferðar, ætti að taka það til rækilegrar íhugunar og yfirvega alt betur.

Þótt frv. þetta verði að lögum, tel jeg það enga bót, þar sem það mundi alls ekki verða til þess að fækka refunum. Það eina, sem við það ynnist, væri það, að teppa atvinnuveg fárra manna.

En eftir mínu áliti ætti beinlínis að hvetja menn í hverju hjeraði til að koma á stofn refaeldi. Það mundi verða til þess að hvetja menn best til þess að eyða grenjum. Skal jeg svo ekki tefja tímann lengur við þessa 1. umr. málsins.