10.09.1919
Neðri deild: 60. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 908 í C-deild Alþingistíðinda. (3440)

148. mál, stofnun verslunarskóla Íslands

Bjarni Jónsson:

Jeg skal ekki rekast mikið frekar í því, sem sagt hefir verið.

Að eins skal jeg benda á það, í sambandi við þau orð hæstv. forsætisráðh. (T. M.), að erlendis væru slíkir skólar reknir sem einstakra manna skólar, hjer á landi hagar öðruvísi til.

Slíka skóla geta ekki rekið nema helst aflmikil fjelög, svo sem kaupfjelög og samvinnufjelög, því að eins og menn vita, græða slíkar stofnanir mjög mikið, sbr. það, sem stendur í vísunni um kaupfjelögin:

í Vinaminni Vídalin

valdsmenn kann að dorga,

veitir klára kampavín!

En kaupfjelögin borga.

Annars er þetta gömul gamanvísa, sem jeg var að hafa hjer yfir.

En þó vil jeg nú halda, að tryggara sje, að ríkið hafi eftirlit með slíkum skólum, því að eins og jeg hefi áður tekið fram, er mikið undir því komið, að til þeirra sjeu valdir góðir menn og fróðir. En auðvitað þurfa Íslendingar engu síður en aðrar þjóðir, að senda verslunarmenn sína utan, til þess að kynnast verslunarhögum annara þjóða, því að hve góður sem skólinn er, geta menn aldrei lært þar alt til fulls. Þarf ekki annað en að benda á verklegt nám, sem þar hlýtur að verða af skornum skamti, en er annars mjög nauðsynlegt.

Hæstv. forsætisráðherra (J. M.) hefir tvisvar talað um það, að frv. þetta gæti ekki orðið að lögum nú, þar sem svo áliðið væri þingsins.

Jeg hefi þó ekki heyrt hann segja það um önnur frv., sem hafa verið hjer til 1. umr. í dag, eins og t. d. frv. til laga um breytingu á þingsköpum Alþingis.

Og jeg býst við því, að á meðan stjórnarskráin og fjárlögin eru hvorugt komin til 2. umr. í Ed., þá hafi einhvern tíma verið drýgð önnur eins þingskapasynd eins og sú, að leggja fram frv. þetta.

Jeg held því, að tími sje nægur til að afgreiða það. Það er líkt flutt af nefnd, og hingað til hefir fjárveitinganefndinni ekki verið treyst öllu ver til að undirbúa mál sín, en öðrum nefndum.

Það væri því af því, að frv. þetta væri látið sitja á hakanum, ef ekki vinst tími til að koma því fram. En það er engin ástæða til að vera því mótfallinn.

Mjer þótti það undarlegt, að hv. þm. S.-Þ. (P. J.) ljet svo um mælt, að jeg hefði getað sparað mjer ræðu mína. Það var eins og jeg hefði móðgað hann með því, sem jeg sagði. En jeg held, að hann hefði eins vel getað sparað sjer það vottorð, sem hann var að gefa um það, hvað samhljóða var í ræðu minni og ræðu hv. frsm. (M.Ó.). Prentunarkostnaður á því hefði vel mátt falla niður.

Hins vegar get jeg vel trúað því, að hann sje tíu sinnum betur að sjer í sögu kaupfjelaganna en jeg. En ef hann heldur, að verslunarfróðir menn hafi verið fyrir öllum þeim kaupfjelögum, sem farið hafa á höfuðið, þá vil jeg samt ráða honum til að lesa upp og læra betur.

Jeg þarf ekki að leita til neinna fræðinga um það, þar sem jeg hefi þekt mennina og man eftir þeim.