03.09.1919
Neðri deild: 53. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 114 í B-deild Alþingistíðinda. (35)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Pjetur Ottesen:

Jeg læt ekki þessa dembu, sem yfir mig dundi frá hæstv. fjármálaráðherra, fá hið minsta á mig, því síður breyta skoðun minni. Það kemur augsýnilega fram hjá hæstv. fjármálaráðherra, að honum er þetta kappsmál mikið, og slær hann því á þá strengina, sem honum þykir líklegastir til að verka fremur á tilfinningar manna en vit. Frekar skal jeg ekki svara hæstv. fjármálaráðherra, því hann hrakti ekki ástæður mínar, en hitt er alkunnugt, þegar menn eru í röksemdahraki, að bregða mótstöðumanninum um skilningsleysi.

Hv. þm. Dala. (B. J.) hjelt langa ræðu um málið og lagði sig mjög til; en eigi gat hann þó sannfært mig um nauðsynina á sendiherranum. Við erum báðir sammála um, að við þurfum að hafa sendimann erlendis, til að greiða fyrir verslun okkar þar, en munurinn er sá, að hv. þm. Dala. (B. J.) getur ekki gert sig ánægðan með minna en sendiherra. Við höfum áður sent verslunarráðunaut utan, og varla mun hv. þm. Dala. (B. J.) neita því, að hann hafi unnið okkur gagn í för sinni. Þessi ráðunautur var, eins og kunnugt er, hv. þm. Dala. (B. J.), og má ske að hann hafi þá fundið, að hann mundi hafa getað gert enn meira gagn, ef hann hefði verið hærra settur og haft aðgang að hærri stöðum, þótt jeg efist um það. Hv.. þm. (B. J.) taldi, að eigi gæti orðið verulegt gagn að skrifstofu í Kaupmannahöfn, og að forstöðumaður hennar mundi lítt geta rekið mál okkar erlendis, og því ekki geta komið okkur að miklu haldi. En jeg hygg þetta eigi rjett vera, meðal annars af því, að ráðherrar okkar þurfa oft að fara til Danmerkur; geta þeir þá gegnt málum okkar þar, því að ætla má þó, að þeir fái þar aðgang að hærri stöðum. Við ættum því síður að þurfa að hafa sendiherra í Danmörku en sumsstaðar annarsstaðar. Hv. þm. (B. J.) minti á það í þessu sambandi, að Danir hefðu þegar sent hingað sendiherra, og fanst honum við því þurfa að gera þeim sömu skil. Hv. þm. (B. J.) má úr flokki tala um danska sendiherrann, því að jeg sá ekki betur en að hann hefði stungið honum í vasa sinn. (B. J.: Nafnspjaldinu hans.)

Hv. þm. Dala. (B. J.) og hæstv. fjármálaráðherra mintust á Boga sagnfræðing Melsteð í þessu sambandi, og tóku hann til bæna fyrir það, sem hann hefir skrifað um málið. En það skulu þeir vita, að hann hefir engin áhrif haft á það, að tillaga mín er komin fram; jeg mundi jafnt hafa borið hana upp hjer, hvort sem Bogi Melsteð hefði skrifað nokkuð um málið eða ekki, og hvernig sem hann hefði tekið í það. Það var því alveg óþarft að vera að draga hann, fjarverandi, inn í umræður þessar; en má ske hefir það verið af því, að þeir hafi þóst þurfa að svala sjer á honum, og fundist hjer vera gott tækifæri til þess.

Þá mintist hv. þm. Dala. (B. J.) á það, að okkur hæfði að sýna hæversku í þessu máli, og það væri óhæverska af okkur, að senda ekki sendiherra til Danmerkur, þar sem Danir hefðu riðið á vaðið, með því að senda hingað sendiherra. Kvað hann það vera viðurkenning fullveldis vors, að aðrar þjóðir sendu hingað sendiherra. Ef fleiri þjóðir en Danir sendu hingað sendiherra, svo sem viðurkenning fullveldis vors, þá mundum við, eftir kenningu hv. þm. (B. J.), að sjálfsögðu verða að sýna þeim þá kurteisi, að senda sendiherra til þeirra, þótt fáir sjeum og smáir. En að svo stöddu getum við þetta ekki beinlínis, meðan Danir hafa utanríkismálin að mestu í sínum höndum, og veit jeg þó, að þm. Dala. (B. J.) vill þó ekki halda því fram, að við getum ekki fengið fullveldisviðurkenningu samt sem áður. Eða erum við nú má ske orðnir að stórveldi í augum hv. þm. (B. J.). Síst hægt fyrir að synja hvað í þeim heila kann að fæðast.

Þá kem jeg að kostnaðaráætlun hv. þm. (B. J.). Hann hjelt, að það mundi ekki verða nema 3–4000 kr. kostnaðarauki við það að hafa sendiherra í Kaupmannahöfn, um fram þær 12000 kr., sem til þess eru ætlaðar í stjórnarfrv. Þetta mun vera allhæpin ályktun hjá hv. þm. (B. J.), og ekki í sem bestu samræmi við það, sem hæstv. forsætisráðherra sagði, að Danir hefðu verið að hugsa um að senda hingað ,,generalkonsul“, en ekki sendiherra, sökum kostnaðar við að halda hann hjer, og þó sagði hann, að sendiherra Dana hjer væri ekki fyrsta flokks sendiherra. Danir hljóta þó að hafa meiri þekkingu á því, hvað það kostar, að hafa sendiherra úti í löndum, en hv. þm. Dala. (B. J.), því að þeir geta bygt hana á reynslu. Enda er það alkunnugt, að það kostar stórfje að halda sendiherra, ef þeir eiga að koma fram í stöðu sinni eins og nútíðarkröfur heimta. Þetta geta stórþjóðirnar leyft sjer, en við ekki; við verðum að sníða okkur stakk eftir vexti; að öðrum kosti getur fullveldið orðið okkur til óhamingju.

Það komu fram nýjar upplýsingar í máli þessu í ræðu hv. þm. Dala. (B. J.). Hann sagði, að fullveldisnefndin hefði fastákveðið þetta í fyrra, því að meiri hluti hennar hefði verið því fylgjandi. Jeg skil ekki í, hvernig þetta getur átt sjer stað, þar sem mjer er allsendis ókunnugt, að nokkuð hafi komið fram um það í þinginu, að setja ætti upp sendiherraembætti í Kaupmannahöfn, þótt sambandslögin kæmust í það horf, sem þau komust í. Og jeg mótmæli því, að það sje nokkurt brot af þingsins hálfu — jeg skal ekkert um það segja, hvað stjórnin hefir makkað við Dani í þessu máli —, þótt við sendum ekki sendiherra til Danmerkur; eða að það sje nokkurt afturhald í sjálfstæðisbaráttu okkar, þótt við gerum það ekki. Hv. þm. (B. J.) sagði, að það væri sama sem að við þurkuðum út alt fullveldi, ef við gerðum þetta ekki. Hann getur með álíka gildum rökum sagt þetta hið sama, ef við sendum ekki sendiherra til allra annara ríkja, þar sem sendiherrar dvelja, en það veit þingm., að við getum ekki. Sendiherratildur er ekki öruggasta ráðið til að halda uppi fullveldi okkar gagnvart öðrum þjóðum og áliti. Jeg vil byggja þetta á alt öðrum grundvelli, — jeg vil, að við sýnum dugnað og framtakssemi á sjó og landi, að við látum fánann blakta sem víðast um höf og í höfnum, á íslenskum skipum, og að við eflum svo atvinnuvegina, að orð berist af út um lönd. Þetta er öruggasta fullveldisvörnin. Fáni, dreginn við hún á íslenskum skipum erlendis, mun auglýsa betur fullveldi okkar og sjálfstæði en fáni, dreginn á stöng á íslenskum sendiherrahöllum bygðum fyrir lánsfje, úti í löndum.