16.07.1919
Neðri deild: 8. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 968 í C-deild Alþingistíðinda. (3502)

20. mál, bráðabirgðahækkun á burðargjaldi

Benedikt Sveinsson:

Jeg skal kannast við, að jeg var frv. þessu fylgjandi á þinginu 1917. En jeg tel það ekki rjett að láta lögin standa lengur í gildi. Fyrst og fremst er það af því, að það er skaðlegt viðskiftalífi landsins að íþyngja mönnum um skör fram með háum póstgjöldum. Það hefir aldrei verið tilgangur ríkisins að gera póstgöngurnar að beinum tekjustofni, þó að auðvitað sje reynt að stilla burðargjaldinu svo í hóf, að þær beri sig.

Þess ber líka að gæta, að mjög er hætt við, að þessi 100% hækkun nái ekki tilgangi sínum, því að sennilega dregur það úr notkun póstanna, að burðargjaldið er hátt. Það er því alls ekki vist, að annað vinnist við hækkun þessa en það, að aftra mönnum frá að nota póstana.

Þessi mikla hækkun kemur einnig til leiðar hinu mesta ósamræmi í póstgjöldum innanlands undir böggla, eftir því, hvort þeir eru innlendir og fara til innlendra staða, eða þeir koma frá útlöndum og fara svo með póstum út um landið, því að samkvæmt gömlum samningum milli Danmerkur og Íslands er póstgjald undir böggla frá Danmörku fastákveðið hjer, og verður ekki hækkað, þótt burðargjald undir innlenda böggla hækki. Undir böggul, sem vegur 5 kg., þarf að greiða 70 aura frá Danmörku til Íslands, þótt hann fari norður á Hornstrandir, en undir jafnþungan böggul hjer innanlands, þótt milli næstu hafna sje, 2,20 kr., eða rúmlega þrisvar sinnum meira.

Það er því alveg ótækt að láta slíkt misrjetti viðgangast.

Sama verður uppi á teningnum, ef um brjef er að ræða. Undir tvöfalt brjef þarf að greiða 20 aura til Danmerkur, en 30 aura til annara landa; en á milli staða á Íslandi, t. d. hjeðan til Hafnarfjarðar, verður að greiða 40 aura undir slík brjef.

Álíka mismunur er einnig á póstávísunum og póstkröfum.

Menn sjá nú, að þetta hlýtur að draga úr viðskiftunum í landinu, og það gerir t. d. verslunum hjer í Reykjavík með öllu ókleift að standast samkepni úti um land við erlendar verslanir, að því er snertir þær vörur, sem sendar eru í bögglapósti. En til þess hefir þó verið ætlast, að Reykjavík yrði verslunarmiðstöð í landinu, og með því markmiði meðal annars var ráðist í hina miklu og dýru hafnargerð hjer í Reykjavík. En slíkar ráðstafanir sem þessar virðast algerlega brjóta í bág við þá hugmynd.

En nú hefir póstmeistari samið annað lagafrv., og sendir það líklega bráðum þinginu, og er þar settur taxti, saminn í samræmi við taxta þann, sem gildir annarsstaðar, og miklu sanngjarnari heldur en sá, sem af handahófi er settur í stjórnarfrv.

Jeg sje því ekki betur en þessu frv. sje alveg ofaukið, en tel þó ekki þörf að fella það að svo stöddu, þar sem fjárhagsnefndin flýtir sjer væntanlega ekki með þetta frv., heldur bíður eftir frv. frá póstmeistara og leggur það til grundvallar.

Sessunautur minn segir mjer nú, að það frv. sje þegar komið til fjárhagsnefndar, og þarf jeg því ekki að slá þennan varnagla.