29.07.1919
Neðri deild: 20. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1121 í C-deild Alþingistíðinda. (3696)

86. mál, almenn hegningarlög

Gísli Sveinsson:

Jeg stend upp til þess að eins, að beina því til nefndarinnar, sem kemur til með að fjalla um þetta mál, og væntanlega verður háttv. allsherjarnefnd, að hún athugi málið á víðtækari grundvelli en frv. háttv. þm. Dala. (B. J.) gefur tilefni til. Það er alveg rjett athugað bæði hjá hv. flm. (B. J.) og hæstv. forsætisráðh. (J. M.), að það orðalag, sem nú er víða á hegningarlögunum, getur ekki samrýmst því sambandi, sem nú er milli Íslands og Danmerkur. En mjer er nú svo farið, að jeg tel orðin ekkert aðalatriði, og jeg held, að það hafi lítið að segja viðvíkjandi fullveldi Íslands, hvaða orðalag er á hegningarlögunum. Þau lög eru hvort eð er allgömul orðin, og jeg tel það hafa litla þýðingu, að fara nú að káka við einstöku orðabreytingar einar saman, því að þess gerist full þörf að gera á lögunum gagngerðar breytingar, ekki að eins á orðfæri, heldur og einkanlega að efni til. Jeg þykist líka vita, að þó að þar stæðu setningar, eins og t. d. „hið danska ríki“, þá mundu fáir hneykslast á því, þótt stæði eitt eða tvö ár enn, nú þegar fullveldisviðurkenningin er fengin í raun og veru. Ef aftur á móti spurningin um efni og orðaval hegningarlaganna verður tekin upp í einu, þá tekur það talsverðan tíma, og væri sjálfsagt að njóta stuðnings af þeirri rannsókn og undirbúningi, sem verið er að gera í Danmörku og víðar á Norðurlöndum, viðvíkjandi endurbótum refsiákvæða. En það er ekki von, að hv. þm. Dala. (B. J.) fari að gefa sig út í það mál. Að því er hann sjálfur segir, og vafalaust er satt, er hann því lítt kunnugur, enda stendur öðrum það nær. Hans frv. fer því í þá einu átt, að koma orðabúningnum í samræmi við það ástand, sem nú ríkir hjer á landi eða milli landanna, en jeg vil, að nefndin taki lögin til rækilegrar athugunar, og má þá þetta orðalag standa óbreytt þar til fullnægjandi breytingar er hægt að gera á refsilöggjöfinni.