27.08.1919
Neðri deild: 47. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1177 í C-deild Alþingistíðinda. (3779)

88. mál, sala á prestsmötu

Frsm. (Pjetur Ottesen):

Jeg get þakkað hæstv. forsætisráðherra (J. M.) fyrir það, hversu liðlega hann hefir tekið þessu máli. Þó benti hann á nokkra agnúa, sem honum virtust vera á því, frá hans sjónarmiði. Hann kannaðist við það, að hjer væri líkt ástatt og með Maríu- og Pjeturslömbin, en hjer munaði þó meiru, væri um stærri fjárhæð að ræða. En af því að þessi leið hefir verið farin með aflausn Maríu- og Pjeturslambanna, þá bendir það til þess, að sjálfsagt sje að ljetta undir með mönnum um að leysa af sjer þessa kvöð, þó að hjer sje um meiri fjárhæð að ræða. Og menn mega ekki horfa í það, þó að ríkissjóður missi einhvers í, úr því að þeir hafa viðkent rjettmæti þessarar kröfu.

En þá er þetta, hversu miklu breytingin muni nema fyrir ríkissjóð. Jeg vil benda hv. deildarmönnum á það, að hæstv. forsætisráðherra (J. M.) sagði, að ekki væri hægt að ávaxta andvirði prestsmötunnar fyrir meira en 41/2%. En jeg held, að hægt sje að fá hærri vexti. Það er vitanlegt, að ríkissjóður tekur mikið af lánum með 6%, og getur hann notað þennan sjóð í sínar þarfir á þennan hátt. Og það er engu verra að borga prestslaunasjóði háa vexti heldur en öðrum lánsstofnunum. Ef þetta væri gert, mundi tap ríkissjóðs verða hverfandi lítið.

Vitanlega má deila um það, hvort prestar fái ekki það, sem þeir eiga sanngirniskröfu til, með því að fá vexti af andvirði prestsmötu, því að sú hækkun, sem orðið hefir á smjöri síðari árin, er engan veginn þeim að þakka, og án þess þeir eigi neina hlutdeild í því, sem slíkir.

Þá hjelt hæstv. forsætisráðherra (J. M.) því fram, að smjörpundið væri ekki reiknað hærra en á 1 kr. Jeg hygg, að það hafi stundum verið reiknað hærra. Jeg veit, að minsta kosti af einum stað, þar sem það var reiknað á 1 kr. 12 aura árið 1917.

Enn fremur hjelt hæstv. forsætisráðherra (J. M.) því fram, að þetta væri ekki saman berandi við gjaldfrest á sölu þjóðjarða og kirkjujarða, því að kaupverð þeirra stæði eftir með 1. veðrjetti. Jeg sje nú ekki, að þess sje nein þörf. En jeg tel sjálfsagt, að stjórnin veiti ekki þennan gjaldfrest, nema fulltrygt veð komi á móti, og þá 1. veðrjettur. Og auðvitað gæti svo lítil skuld hvílt á eigninni, að hættulaust væri að lána út á 2. veðrjett.

Loks vænti jeg, að hv. deild taki máli þessu liðlega og leyfi því fram að ganga.