14.07.1919
Neðri deild: 7. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1221 í C-deild Alþingistíðinda. (3865)

52. mál, skipun læknishéraða o. fl. (Bakkahérað)

Einar Jónsson:

Jeg get ekki látið hjá liða að geta þess, að mjer virðist byrjun mála ganga miklu greiðar nú en áður. Með öðrum orðum: Hv. þm. hafa að miklu leyti lagt niður þann leiða vana, að halda langar ræður við 1. umr. Venjan er orðin sú, að hverju einasta máli er vísað til nefndar, og þá fyrst, er nefndirnar hafa skilað málunum til deildanna aftur, eiga umr. við, ef ágreiningur rís, — annars aldrei.

Hjer liggja nú fyrir í dag þrjú samkynja frv. Fyrsta frv. var frá hv. þm. N.-Ísf. (S. St.), og verð jeg að segja, að jeg bjóst ekki við því af honum, að hann myndi innleiða og byrja langa þingræðu við 1. umr. En jeg verð að láta hann vita það, að hann þreytti mig, og jeg hygg einnig aðra hv. þm., með sinni löngu ræðu.

Jeg vil láta þess getið um þessi læknafrv., að jeg vil, að þau fái góðar viðtökur, sjeu vel athuguð í nefndum, og með þau sje farið eftir sanngjörnum „skala“ á endanum.

En nú verð jeg að fara örlítið út í annað. Jeg get ekki bundist þess, að þakka hv. þm. Dala. (B. J.) fyrir það, sem hann mælti um verðtollinn. Jeg hygg hann að öllu rjettari og sanngjarnari, og verður því sá hluti dagskrárinnar hv. þm. Dala. (B. J.) til heiðurs.

Yfirleitt hygg jeg það best, að menn sjeu stuttorðir um málin, einkum áður en þeim er vísað til nefndar. Þar er þeim vandlega sint. Mun jeg því geyma mjer rjett minn til að ræða þessi læknafrv., þar til við síðari umr. Jeg óska þess, að þinginu megi auðnast að greiða úr þeim málum eftir nauðsyn og skapa læknum sæmileg launakjör.

Lýk jeg svo máli mínu, og vil þakka hv. 1. þm. N.-M. (J. J.), að hann var stuttorður og gagnorður um mál það, er hann hafði í höndum. Hið sama hefði háttv. þm. N.-Ísf. (S. St.) átt að geta.