05.08.1919
Neðri deild: 25. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1277 í C-deild Alþingistíðinda. (3921)

78. mál, rekstur sýslumannsembættisins í Árnessýslu

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg vil bæta því við, sem jeg gleymdi að minnast á áðan, nefnilega hvernig á stóð með löggilding cand. jur. Páls Jónssonar. Jeg var að vísu fjarverandi þá, en veit þó, að því var þannig háttað, að 24. apríl tilkynti Guðmundur Eggerz stjórninni, að hann ætlaði að taka við embættinu um næstu mánaðamót, og jafnframt að hann hefði ráðið Pál Jónsson sjer til aðstoðar á skrifstofu sína næsta ár; óskaði hann að fá Pál löggiltan fulltrúa sinn. Á þessu var það bygt, að löggildingin var veitt; það var gert með það fyrir augum, að Guðmundur Eggerz mundi þegar taka við sýslunni, en þegar það reyndist svo, að hann mundi ekki eins bráðlega hafa lokið fossanefndarstörfum og við var búist, þá var löggildingin afturkölluð. Þetta er svo einfalt mál, að lengra sýnist ekki þurfa að fara út í það. Jeg býst við, að hv. fyrirspyrjandi (E. A.) þurfi að segja eitthvað fleira áður en lýkur, og ætla jeg því ekki að tala fleira um málið, fyr en jeg heyri hvað hann segir.