03.09.1919
Neðri deild: 53. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 156 í B-deild Alþingistíðinda. (46)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Fjármálaráðherra (S. E.):

Þótt greinar þær í fjárlagafrv., sem hjer eru til umr., heyri ekki sjerstaklega undir mig, neyðist jeg til að koma fram með nokkrar athugasemdir út af ræðu háttv. frsm. (M. P.).

Hann tók það fram, að fjárveitinganefnd ætti ekki ein sök á þeim halla, er yrði á fjárlögunum, heldur ætti stjórnin sök á þeim halla, er t. d. launalögin hefðu í för með sjer.

Það er rjett, að stjórnin lagði til, að launafrv. yrði samþykt, og á þess vegna sök á þeim halla, er af þeim leiðir. En hitt hygg jeg, að ef fjárlagafrv. hefði gengið í gegnum þingið eins og það kom frá stjórninni, og tekjuaukafrv. hennar verið samþykt, hefði ekki orðið mikill halli á þeim, þó að útgjöldum þeim, er launafrv. hefir í för með sjer, væri bætt við.

Jeg gat þess, er jeg lagði fram fjárlagafrv., að ef háttv. fjárveitinganefnd kæmi fram með tillögur, er hefðu mikil aukin útgjöld í för með sjer, væri nauðsynlegt að koma fram með tekjuaukafrv. til að vega upp hallann. Mæltist jeg í því sambandi til þess, að formaður fjárveitinganefndar gerði mjer aðvart um slíkt, svo jeg yrði við því búinn, að koma með tekjuaukafrv., ef á þyrfti að halda.

Jeg bið háttv. frsm. (M. P.) að gæta þess, að það, sem jeg hefi haft á móti tekjuhalla, er ekki sprottið af því, að jeg sje á móti framkvæmdum þeim, sem útgjöldunum er varið til, ef sjeð hefði verið samhliða fyrir tekjuauka. En hitt hefi jeg sagt, að væri um tvent að velja, annaðhvort að fjárlögin færu út úr þinginu með halla, eða að dregið yrði úr framkvæmdum, þannig, að þau yrðu samþykt hallalaus, vildi jeg skýlaust minka framkvæmdirnar og draga úr hallanum. Jeg hygg, að ef stefnt er inn á þá braut, að halli á fjárlögunum sje greiddur með lánum, muni reka að því, að erfitt muni að fá þau lán. Varð jeg var við það í utanför minni, að miklu erfiðara var að fá lán til beinnar eyðslu en til framkvæmda.

Jeg er ekki í vafa um, að landið hefir nú gott lánstraust, en skilyrðin fyrir því, að það sje ekki eyðilagt, er að farið sje varlega í fjármálunum.

Háttv. frsm. (M. P.) sagði, að jeg hefði ekki bent á neina einstaka liði, sem mætti fella burtu. Jeg benti þó hjer í þessum kafla á fjárveitingar, sem nema um 300 þús. kr., en fjárveitingar til vega hafa verið hækkaðar um þessa upphæð frá stjórnarfrv. Mætti nefna þar á meðal fjárveitinguna til viðhalds Flóaveginum, sem ríður í bága við það fyrirkomulag, sem lögin ákveða um viðhaldið, og væri því rjettast að gera breytingu á lögunum fyrst.

Háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) tekst ekki að sannfæra mig eða aðra um, að Árnessýsla sje og hafi verið olnbogabarn þingsins. Það hefir hún ekki verið og á heldur ekki að vera. Í sjálfu sjer er jeg ekki að mótmæla því, að viðhald þessara vega sje yfirfært á landssjóðinn, en það á að gilda jafnt fyrir alla. Má t. d. benda á, að vegaviðhaldið í Mýrasýslu er alveg óþolandi.

En þegar svo stendur á, sem nú um fjárhag landsins, þá verður að skera margt niður, sem í sjálfu sjer er gagnlegt, eða þá að herða á sköttunum. En jeg veit ekki, hvort menn eru undir það búnir að taka þeim afleiðingum af eyðslu sinni. Ef hækkanirnar verða samþyktar, mun jeg hiklaust koma fram með nýja tekjuauka, sem jeg geri þá kröfu til, að verði vel tekið. Það er ekki hægt að taka á skattamálunum með silkihönskum, ef þessu vindur fram. Háttv. frsm. (M. P.) hefir líka sagt, að þjóðin vilji heldur þann kostinn en að dregið sje úr framkvæmdunum.

Eitt vildi jeg athuga. Það virðist yfirleitt vera skoðuð sem ófrávíkjanleg sönnun fyrir nauðsyn fjárveitinganna, ef vegamálastjóri, vitamálastjóri, símastjóri o. s. frv. óska eftir þeim. En það er ekki nema sjálfsagt, að þeir vilji altaf sem mest fje hver um sig til ýmsra framfara, hver á sínu sviði. Stjórn og þing verða því að taka tilmælum þeirra með gætni og umhugsun, og gæta sín að samþykkja ekki meira en fjárhagurinn leyfir. Menn fara jafnvel svo langt í því, að hlaupa eftir tillögum þessara stjóra, að háttv. frsm. (M. P.) taldi það „reglulegan búhnykk“ að hækka skrifstofufje til eins þeirra. Jeg býst við, að flestir starfsmenn landsins mundu þiggja samskonar „búhnykk“, og landinu yrði auðvelt að græða, ef ekki þyrfti annað til.

Fjárlögin hafa hingað til verið aðalgatan í fjármálum þjóðarinnar. En nú er farið að leggja aukagötur út frá þeim; jeg á við frv. um brúa- og húsabyggingar. Þau skapa nýjar miljónaskuldir. Þessu fylgir stór hætta. Mönnum hættir við að gleyma því, sem er fyrir utan fjárlögin. En með þessu móti verða þau ekki lengur neinn mælikvarði á fjárhagsástandið. Það verður því að fara þessar hliðargötur með mestu varfærni.

Annars er það alveg rjett um byggingarnar, t. d. landsspítala, að ekki er hægt að ráðast í þær nema með því að taka lán. En þar fyrir verður að hafa mestu gætni í þessum sökum.

Háttv. frsm. (M. P.) vjek að því, að rjett væri að taka lán innanlands, til brúargerðanna. Jeg ímynda mjer, að það væri þess vert að gera tilraun til þess. Stjórnin hefir haft þetta í huga, og fengið ýmsar tillögur um þau efni frá sjerfróðum mönnum. Þau skjöl get jeg sýnt háttv. framsm. (M. P.), ef hann óskar þess.

Jeg sje, að ekki muni sparast fje á þessari grein, og svo bregðast krosstrje sem önnur, því hæstv. atvinnumálaráðherra (S. J.) virðist gleypa við tillögum nefndarinnar.