11.08.1919
Neðri deild: 30. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 810 í B-deild Alþingistíðinda. (501)

28. mál, hæstiréttur

Sigurður Sigurðsson:

Mjer virðist svo, sem hv. 2., þm. Árn. (E. A.) vilji leggja nokkuð mikið í þessa till. Og jafnvel tileinka mjer miður góðar hvatir þar að lútandi. En í sjálfu sjer er þessi till. afareinföld og segir ekki annað eða meira en það, sem öllum hlýtur að vera ljóst, frá hvaða sjónarmiði sem á það er litið. Mjer skilst, að það muni þurfa talsverðan undirbúning undir það að framfylgja lögunum um stofnun hæstarjettar hjer, sem ekki er þegar gerður, og ef til vill ekki verður lokið fyrir næstu áramót. Þetta er meðal annars ástæðan fyrir, að till. er komin fram.

Hvað snertir nauðsynlegt húsrúm, þá vita allir, að það er ekki tilbúið nú. Þó mætti líklega bjargast við eitthvert húsrúm, sem til er í bænum, svo að ekki þyrfti að koma til þess að byggja nýtt hús handa hæstarjetti. En að sjálfsögðu þyrfti talsverða umbót. En eins og kunnugt er, þá eru allar slíkar umbætur á húsum afskaplega dýrar nú sem stendur. Aftur á móti gæti vel hugsast, að slíkar viðgerðir yrðu ódýrari eftir nokkurn tíma, því gera má ráð fyrir, að bæði efni og vinna lækki á næstu árum.

Í öðru lagi sje jeg ekki, að það sje neitt sjerlega aðkallandi að fá hæstarjett fluttan hingað heim eða lögin framkvæmd svo að segja samstundis. Allir eru á einu máli um, að sjálfsagt sje að flytja hann þaðan, sem hann nú er, fyr eða seinna. En hins vegar eru talsvert skiftar skoðanir um, hvort nauðsyn reki til að gera það nú þegar. Jeg fyrir mitt leyti sje ekkert hættulegt við það, þó því sje frestað 1–2 ár. Að nokkur hætta stafi af því, að næsta þing, 1920, eða reglulegt þing 1921, fari að framlengja frestinn í það óendanlega, ef undirbúningur er þá nægur, — það læt jeg mjer ekki detta í hug. —

Þó jeg kannist við, að til sjeu hæfir menn að setja í þennan dóm, þá skilst mjer, að sparnaður, sem nokkru nemur, sje að því, að hann taki ekki til starfa fyr en eftir 1–2 ár. Og mjer er ekki ljóst, að það valdi neinum óþægindum fyrir þessa menn, þó framkvæmdum sje frestað um sinn. Ef svo kynni að fara, sem jeg geri varla ráð fyrir, að þessi till. yrði samþ., þá leiddi af því, að setja yrði bráðabirgðaákvæði um laun yfirdómara í launalög embættismanna, þar til hæstirjettur væri kominn. Skal jeg svo ekki fjölyrða meira um þetta að sinni.