03.09.1919
Neðri deild: 53. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 177 í B-deild Alþingistíðinda. (54)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Frsm. fjárveitinganefndar(Magnús Pjetursson):

Hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) neyðir mig til að standa upp, til að gefa stutta skýringu á tveimur eða þremur atriðum.

Hann sagði að fjárveitinganefnd hefði ekki hugsað út í, hvað hún var að gera, fyr en á síðustu stundu. En þetta er ekki rjett. Nákvæmt yfirlit gat nefndin ekki gert fyr en allar brtt. voru fram komnar. En fjármálaráðherra spurði mig oft, hvað jeg hjeldi að tekjuhallinn mundi verða mikill, og sagðist jeg ekki vita það fyrir víst, en sennilega mundi hann verða ca. 1 miljón.

Það kom illa heim hjá hæstv. fjármálaráðherra, að jeg væri að vinna mjer sjerstakt fylgi kjósenda með starfi mínu í nefndinni. Því jeg hvorki vann þar nje tala hjer fyrir brtt. nefndarinnar sem þm. Strandamanna eingöngu, heldur fyrst og fremst sem framsögumaður fjárveitinganefndar.

Hafnargerðanna, sem hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) talaði um, hefir nefndin ekkert tillit getað tekið til, vegna þess, að hún hefir enn ekkert haft með þær að gera. Það hefir engu slíku verið skotið til hennar enn.