16.08.1919
Efri deild: 32. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 923 í B-deild Alþingistíðinda. (646)

18. mál, fasteignamat

Atvinnumálaráðherra (S. J.):

Jeg var nokkuð lengi að hugsa um það atriði, sem hv. þm. Ak. (M. K.) benti á, eftir nál., en fanst ekki vera unt að skilja það á annan veg en að þessu mati yrði stjórnin að fylgja við útgáfu jarðamatsbókarinnar; en ekkert er á móti því, að taka þetta skýrar fram.

Jeg vil taka það fram, út af ummælum hv. 1. þm. Rang. (E. P.), að ekki hefir verið rótað við mælikvarðanum, sem meta á eftir, sem sje að meta jarðir eftir því verði, sem þær væru sanngjarnlega seldar fyrir. Þetta á að vera grundvallarreglan eftir lögunum, og henni á ekki að raska með þessu frv.

Trúlegt er, að landsnefndarmennirnir geti ekki sagt nákvæmlega um, hversu sanngjarnlega hin eða þessi jörð sje metin. En af dæmum um einstakar jarðir úr einstaka sýslum má nokkuð sjá það. Þegar t. d. jörð með tilheyrandi mannvirkjum er metin lægra verði en mannvirkin ein myndu kosta. Þá er sannarlega ekki um sanngjarnt mat að ræða. En þessa munu þó nokkur dæmi.

Nefndin á að kynna sjer, hvaða mælikvarða undirmatsnefndirnar hafa haft. Hv. 4. landsk. þm. (G. G.) sagði frá, hvaða mælikvarða undirmatsnefnd sú, er hann átti sæti í, hefði haft, en sinn mælikvarði getur hafa verið í hverjum stað. Komist yfirmatsnefndin að niðurstöðu um það, hvaða mælikvarði sje rjettlátastur, eftir staðháttum og öðru, getur hún notað þann mælikvarða hvort heldur er norður á Ströndum eða austur í Skaftafellssýslu, svo ókunnugleiki þarf ekki að standa í vegi fyrir því, að breytingar til eða frá í einstökum hjeruðum verði til bóta.