28.08.1919
Neðri deild: 48. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 934 í B-deild Alþingistíðinda. (662)

18. mál, fasteignamat

Pjetur Þórðarson:

Háttv. þm. N.-M. (J. J.; taldi, að það hefði verið hin mesta heimska að setja þingnefnd í málið. Jeg get ekki fallist á það. Jeg get ekki sjeð, að þingnefnd hefði ekki alveg eins getað gert þetta verk eins og fimm manna nefnd, skipuð utanþingsmönnum. Því það hlýtur hv. þm. (J. J.) að viðurkenna, að hvergi er eins mikil þekking saman komin á fasteignum hjer og hvar á landinu eins og hjá þingmönnum sjálfum, sem eru hingað og þangað að úr öllum sýslum landsins.

Hv. þm. S.-Þ. (P. J.) taldi hina einu rjettu grundvallarreglu fyrir matinu verð fasteigna, eins og þær gengju kaupum og sölum. En jeg dreg mjög í efa, að matið hafi alment verið bygt á þessum grundvelli. Og væri þetta rjett hjá hv. þm. (P. J.), og væntanleg nefnd bygði rannsókn sína á þessum grundvelli, þá er jeg sannfærður um, að koma mundi mikil breyting á matið, og vafasamt hvort hún yrði til bóta.

Annars tel jeg ekki þýða að orðlengja mikið um þetta mál, en vona, að stjórnin flýti sem mest fyrir, að því verði lokið sem fyrst að unt er.