30.07.1919
Neðri deild: 21. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 975 í B-deild Alþingistíðinda. (744)

3. mál, fjáraukalög 1918 og 1919

Björn R. Stefánsson:

Það er viðvíkjandi brtt. á þgskj. 209, að jeg vildi segja fáein orð. Hvað fyrra lið hennar snertir, þá hefir hann legið fyrir fjárveitinganefnd og hún samþ. hann. En síðari liðurinn lá fyrst fyrir í gærkvöldi hjá samgöngumálanefnd og hefir því ekki komið fram fyrir fjárveitinganefnd. Það hefir lengi staðið 400 kr. styrkur til vjelbátsferða um Hvalfjörð í fjárlögunum, en hefir ekki verið hækkaður á seinustu árum, eins og aðrir samskonar styrkir Hann hefir því hvergi nærri verið fullnægjandi, og t. d. í fyrra dugði hann að eins í tveggja mánaða tíma. En af því að þörfin var brýn áfram til slíkra ferða, sáu hlutaðeigendur sjer ekki annað fært en að gera samning við vjelbátseigendur og lögðu sjálfir fram fje á móti því, sem veitt var úr landssjóðnum. Þörfin fyrir þessar ferðir eykst stöðugt, því að verslanir eru nú risnar upp sitt hvoru megin fjarðarins, svo margir, sem áður sóttu í Borgarnes og Akranes, sækja nú þangað. Svo hefir það oft komið fyrir, að menn hafa mist af því að koma vörum sínum til útflutnings og sölu hjer í Reykjavík á rjettum tíma, vegna flutningavandræðanna. Jeg tel því sjálfsagt að veita þennan viðbótarstyrk.

Um fyrra lið brtt. skal jeg taka fram að í fjárlögunum var Breiðafjarðarbátnum ætlaðar 18.000 kr. á ári, og hafði stjórnin gert samning við eigendur vjelskipsins „Svanur“ að halda uppi ferðunum gegn því, að allur styrkurinn gengi til þess skips. En svo bilaði „Svanur“, og varð þá að fá annan bát, sem fekst ekki nema gegn 1000 kr. borgun fyrir ferðina. Stjórnin hafði nú enga fjárveitingu við höndina til bátsins utan þessar 18000 kr., og tók því 1000 krónur frá „Svan“, sem naumast var sanngjarnt, vegna þess, að báturinn var bilaður, og þetta var ekki á þeim tíma, sem „Svanur“ var skuldbundinn til að ganga samkvæmt samningnum. Jeg tel því fulla sanngirni, ef ekki skyldu þingsins, að veita þennan 1000 kr. viðbótarstyrk til ferðanna á Breiðafirði síðastliðið ár.