15.08.1919
Efri deild: 31. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1016 í B-deild Alþingistíðinda. (780)

3. mál, fjáraukalög 1918 og 1919

Atvinnumálaráðherra (S. J.):

Það eru ekki mörg atriði, sem jeg ætla að minnast á; en í sambandi við símalínuna að Borg í Grímsnesi vil jeg benda á að það liggja fyrir till. til þingsál. um rannsókn 6 símaleiða og iðulega koma umsóknir til stjórnarráðsins um nýjar og nýjar rannsóknir. Það sem mjer finst aðalatriðið er að fjölga þráðum á aðallínunum sem allra fyrst, og þar næst að athuga, hvar mest er þörfin fyrir aukalínur. Þessi spotti, sem hjer er um að ræða, finst mjer alls ekki í fremstu röð. Virðist mjer langtum fremur þörf á línu til Kálfshamarsvíkur, og frá Þórshöfn að Skálum, en samt mun jeg eigi greiða atkvæði móti þessari grein því mjer er kunnugt, að þarna er einnig töluverð þörf fyrir hendi. Aftur á móti vil jeg eindregið mæla með símalínunni að Stórhöfða í Vestmannaeyjum. Stjórninni hafa borist erindi um þetta mál, og hefir hún lofað fylgi sínu. Eins og hv. þm. Vestm. (K. E.) tók fram, getur þessi spotti stórum stuðlað að því, að ljósta upp um ólöglegar veiðar í landhelgi, og gæti farið svo, að þessi sími margborgaði sig á þann hátt.

Eins vil jeg mæla með styrkveitingunni til Trausta Ólafssonar. Hann er kominn langt áleiðis með nám sitt, og hjer vantar tilfinnanlega efnafræðing á rannsóknarstofuna. Út úr vandræðum hafa menn orðið að fela stöðuna manni, sem ekki er fær um að gegna henni nema að nokkru leyti. Hefir hann sjálfur einmitt bent á Trausta, sem hæfastan mann í stöðuna. Það hefir verið mikið talað hjer um auðæfi landsins, bæði hvað snertir steinaríkið og ræktunarskilyrði landsins, frjóefni vatnsfalla o. fl. En til rannsókna á þessu útheimtist einmitt vel hæfur efnafræðingur; ella verður að senda öll sýnishorn til útlanda.

Hvað snertir till. um dýrtíðaruppbót handa dýralæknum, skal jeg geta þess, að dýralæknar hafa fremur lítil laun, en oft mikið ónæði og kvabb fyrir litla sem enga borgun. Mun jeg því greiða atkvæði með uppbótinni.