01.09.1919
Neðri deild: 52. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1024 í B-deild Alþingistíðinda. (798)

3. mál, fjáraukalög 1918 og 1919

Þorsteinn Jónsson:

Eins og kunnugt er, samþykti þingið 1918 dýrtíðaruppbót handa læknum, 60% af aukatekjum þeirra. Tilefni til þessa var það, að læknar höfðu farið fram á, að þingið hækkaði taxta þeirra fyrir læknisstörf um 100%. Þessi háttv. deild vildi ekki ganga að því, en lagði til, að öllum læknum, jafnt mannalæknum sem dýra, skyldi veitt 500 kr. uppbót hverjum af launum þeirra. Hv. Ed. vildi ekki fallast á þetta, en bar fram till. um að veita mannalæknum 60% dýrtíðaruppbót af aukatekjum þeirra.

Neðri deild sá sjer ekki annað fært en að samþykkja málið eins og það kom frá háttv. Ed., þótt henni væri það ljóst, hvílíkum misrjetti dýralæknarnir voru beittir og þótt það lægi í augum uppi, að þeir mundu una lítt við þessi málalok.

Sú er og reyndin á orðin, eins og við mátti búast. Nú hafa dýralæknarnir ritað þinginu og fara fram á, að þeir fái jafnháa dýrtíðaruppbót af aukatekjum fyrir árin 1918 og 1919 eins og aðrir læknar. Ástæðan er auðsæ. Þeim finst sjer gert lægra undir höfði en mannalæknunum, þar sem hvorirtveggja hafa jöfn fastalaun, og því finst þeim sjálfsagt, að þeir eigi rjett á að fá sömu dýrtíðaruppbót af aukatekjum sínum sem mannalæknarnir.

Um rekstur embættanna er það að segja, að dýralæknaembættin munu vera erfiðari en mannalækna, því að hver dýralæknir hefir miklu stærra svæði til yfirsóknar en nokkur mannalæknir.

Það hefir verið tekið fram sem ástæða gegn því, að dýralæknar fengju dýrtíðaruppbót af aukatekjum, að þeir hefðu engan lögboðinn taxta til að fara eftir við læknisstörf sín. Þetta er að sumu leyti rjett, en þó eigi alls kostar. Þeir munu hafa fastákveðinn ferðataxta fyrir kjötskoðun og ferðir. En fyrir einstök læknisverk hafa þeir ekki ákveðinn taxta, en auðvitað hlýtur hann að skapast að mestu leyti af sjálfu sjer, og getur aldrei orðið mjög hár, því að fáir mundu sækja dýralækni, ef þeir þyrftu að borga honum mikinn hluta af gripsverðinu fyrir að skoða gripinn. Dýralæknarnir geta því aldrei heimtað mjög háa borgun fyrir læknisstörf sín.

Þessi brtt. fer ekki eins langt eins og dýralæknarnir æsktu. Að vísu er mjer ekki kunnugt, hve miklar aukatekjur þeirra muni vera. En svo miklar munu þær þó vera, að 12–1600 kr. uppbót á þeim mun ekki nema meiru en um 30% dýrtíðaruppbót á aukatekjunum.

Ef ekki er fallist á þessa till., væri ekki ólíklegt, að dýralæknarnir skoðuðu það sem bendingu frá þinginu um, að því væri ekki sjerlega ant um, að þeir hjeldu áfram starfi sínu, eða að minsta kosti bending til þeirra um að hækka lækningataxtann. En slíkt er óheppilegt, og eins og jeg gat um áðan, allerfitt. Enda hefir þingið sýnt það með undirtektum sínum hvað laun mannalækna snertir, að það er á móti því, að taxti þeirra verði hækkaður, en vill að laun þeirra sjeu að sem mestu leyti greidd úr ríkissjóði. Það kendi því ósamræmis hjá þinginu, ef það færi nú sama sem að segja dýralæknunum að hækka taxta þeirra. Ef deildin hins vegar ætlast til, að þeir haldi sama taxta sem áður, þá verða þeir vitanlega fyrir misrjetti.

Brtt. svipuð þessari var borin fram í hv. Ed., en feld þar með litlum atkvæðamun. Þótt háttv. Ed. hafi gert sig seka um ranglæti, er hún feldi brtt., ætti þessi hv. deild að forðast að gera hið sama. Það er skylda hennar að bæta úr yfirsjón systur deildarinnar. Og þótt fjáraukalögin þyrftu að ganga aftur til háttv. Ed. fyrir þá sök. þá er þeim engin hætta búin af því.