28.08.1919
Neðri deild: 48. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 62 í B-deild Alþingistíðinda. (9)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Gísli Sveinsson:

Jeg og fleiri hafa á undanförnum þingum, og það seinast á aukaþinginu í fyrra haust, rakið að nokkru feril þeirrar stjórnar, er nú um hríð hefir setið að völdum í landinu.

Það, sem síðan hefur gerst, eða það, sem hún hefur síðan gert, er að mörgu leyti beint framhald af því, sem hún hafði áður að gert. Mörg af þeim afrekum hennar hafa sætt talsverðum aðfinslum, bæði frá mjer og öðrum, og get jeg um þau atriði látið mjer nægja að vísa til þess, sem fyr hefir sagt verið.

Nú hefir þessi hæstv. stjórn sagt af sjer, og er það ekki vonum fyr. En hversu mönnum tekst að fá nýja, betri stjórn, er ekki enn hægt um að segja.

En þar sem telja má, að þessi stjórn sje nú liðin undir lok, þótt hún gegni enn þá störfum, þá ætla hvorki jeg nje þeir, sem næstir mjer standa, að þessu sinni að gefa tilefni til neins sjerstaks „eldhúsdags“.

Jeg fyrir mitt leyti hefi enga lyst á því að leggjast á náinn. Og þó að jeg engan veginn viðurkenni algildi setningarinnar latnesku: „Nil de mortuis nisi bene“, er útlegst: „Um hina dauðu ekkert nema gott“, þá get jeg þó fallist á með sálmaskáldinu: Sá dauði hefir sinn dóm með sjer! — Og grafskrift má setja, þó síðar verði.

Hins vegar geri jeg ráð fyrir, að sumir háttv. þingdm. kunni að hafa einhverjar fyrirspurnir, sem þeir vilji leita svars við hjá hæstv. stjórn, við þetta tækifæri. Jeg vildi hjer minnast á að eins eitt atriði, og er það í fyrirspurnarformi.

Það bar til á öndverðu þessu þingi, að hæstv. atvinnumálastjórn lagði fyrir þingið tvö frv. meðal annara. Var annað þeirra um seðlaútgáfurjett Landsbankans. en hitt um breytingu á lögum um stofnun hlutafjelagsbanka á Íslandi, og stóð það í nánu sambandi við hið fyrnefnda.

Vitanlega lýsti hæstv. atvinnumálaráðh. (S. J.) sig að fullu og öllu meðmæltan frv. þessum, er hann lagði þau fyrir þingið. En þegar til kastanna kemur og taka á afstöðu í málinu, þá klofnar nefndin, sem um það fjallar, og meiri hluti deildarinnar rís öndverður gegn því, sem var aðalatriði málsins, að seðlaútgáfan yrði færð yfir á hendur Landsbankans. Og það kvað svo ramt að, að þeir menn, sem málinu voru fylgjandi, áttu fult í fangi og í vök að verjast, að verða ekki kæfðir í flóði óviðurkvæmilegra ummæla frá hinna hálfu. Þeir áttu fult í fangi með að afsaka sig, að þeir væru ekki með þessu að gerast þjóðníðingar, eins og átti að stimpla þá.

En þetta merkilega mál er nú útrætt og því að vissu leyti úr sögunni. En eitt fyrirbrigði er merkilegt í málinu og stendur eins og klettur úr hafinu til minningar.

Og það er það, að hæstv. atvinnumálaráðh. (S. J.), sem leggur frv. þetta fyrir þingið, sem sitt eigið, hann kemur ekki fram síðan, að taka þátt í umr. um málið svarar hvorki fyrir sjálfan sig nje málið.

Og það er svo langt frá, að hann geri það, að hann lætur allan sinn flokk í þessari háttv. deild rísa öndverðan gegn málinu athugasemdalaust og án þess að æmt sje eða skræmt frá hans hálfu.

Hann lætur ekki svo mikið sem sjá sig við umr., þegar verið er að drepa frv. hans. Þótt segja megi, að við höfum ekki langa þingsögu, þar sem ríkt hefir þingræði, mun óhætt að fullyrða, að þetta sje einstakt dæmi, og jeg veit ekki dæmi til þess neinstaðar annarsstaðar undir sólunni.

Og nú vildi jeg spyrja hæstv. atvinnumálaráðh. (S. J.), hvort hann hafi ætlað að láta þetta eftir sig í stjórnarsögu sinni sem óbrotgjarnan minnisvarða, og hvort hann ætlist til, að þetta verði hjer eftir stjórnarregla í landinu, þegar um mikilsverð deilumál er að ræða.

Þykir mjer svo, sem hjer sje full ástæða fyrir hann að skýra nú frá því, hvers vegna hann gat ekki gætt skyldu sinnar að vera viðstaddur og taka til andsvara gegn árásum þeim, er mál hans sætti hjer í deildinni.