23.02.1920
Neðri deild: 10. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 149 í C-deild Alþingistíðinda. (1054)

33. mál, læknishérað í Ólafsfirði

Flm. (Stefán Stefánsson):

Jeg sje ekki þörf á því að fara mörgum orðum um þetta mál. Bæði var það til umræðu á síðasta þingi, og auk þess fylgdi þá skýrsla frá 149 kjósendum í Ólafsfirði um málið. Þessi skýrsla er mjög glögg, og með því að fá glöggar skýrslur um málið geta hv. þm. best sjeð, við hvaða kjör Ólafsfirðingar eiga að búa í þessu efni; jeg hefi því tekið helstu ástæðurnar, sem þar eru tilfærðar, upp í greinargerðina fyrir frv., en vil þó geta þess, að um 600 manns búa í Ólafsfirði, og að mikill fjöldi þessara manna býr í sjálfu kauptúninu. Það verður því talsvert mikið fyrir þann lækni að gera, sem sest þar að, því að það er öllum kunnugt, að þegar margir búa saman á einum stað, er miklu meira fyrir lækni að gera þar heldur en þegar sami fólksfjöldi býr dreifður um stórt hjerað.

Ferð til næsta læknisseturs, Dalvíkur, kostar alt að 100 krónur. Það er því auðsætt og eðlilegt, að fátækt fólk kynoki sjer við að leggja í slíkar ferðir nema í alvarlegustu tilfellum, og þó að þaðan sjeu margar ferðir farnar eftir lækni, þá er ekki full sönnun fyrir, hve mikil þörf læknis er þar. En þegar það getur auk þess borið við, að stundum sje alveg ómögulegt að ná til læknis, þá geta allir hv. þm. sjeð, hve óþolandi það er, að þá sjeu allar bjargir bannaðar.

Í gildandi fjárlögum eru Ólafsfirðingum ætlaðar 1500 kr. til þess að geta haft lækni þarna hjá sjer, en nú munu meðallæknislaun vera nokkuð á 7. þús. krónur; þeir þyrftu því að greiða úr eigin vasa yfir 5 þúsund krónur, til þess að geta notað þennan styrk. Þeir hafa mörgum sinnum lýst yfir því, að þeir geti ekki lagt þetta fje til, og hygg jeg, að enginn muni furða sig á því, þótt fátækt sveitarfjelag geti það ekki,

Jeg vil svo leyfa mjer að óska þess, að málinu verði vísað til allsherjarnefndar, svo að það verði tekið þar til meðferðar ásamt öðrum samkynja málum, sem þangað eru komin.