23.02.1920
Neðri deild: 10. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 151 í C-deild Alþingistíðinda. (1057)

36. mál, hlunnindi í nýjum banka í Reykjavík

Flm. (Sveinn Björnsson):

Jeg vil taka það fram, að jeg og hv. meðflm. mínir flytjum þetta frv. samkvæmt tilmælum nokkurra manna hjer í Reykjavík, og flytjum það eins og það kom fyrir. Jeg vil fyrir mitt leyti ekki segja, að jeg vilji gera öll þess orð að mínum, en taldi sjálfsagt að flytja frv., til þess að koma þessu merkilega máli fyrir þingið.

Jeg skal vera stuttorður; vona, að hv. deild leyfi þessu máli að ganga áfram og síðan til fjárhagsnefndar.

Það, að jeg vil greiða fyrir þessu máli, á rót sína að rekja til þess, að jeg er sannfærður um, að ef hjer kæmi upp nýr banki, einkabanki, myndi það í fyrsta lagi verða mjög heppileg samkepni við hina bankana, og auk þess væri full nauðsyn á aukinni peningaveltu til ýmsra starfa.

Eins og menn vita, hefir öll viðskiftavelta aukist mjög mikið hjer, framleiðslan aukist stórkostlega. Viðskiftaveltan frá fyrri árum er ekkert í samanburði við það, sem hún er nú. Þegar sú ástæðan er komin í viðbót, annaðhvort að auka starfsfje eldri hlutabankans, eða stofna nýjan, og þegar talað er um annaðhvort af þessu tvennu, held jeg, að menn hljóti að komast að þeirri niðurstöðu, að hyggilegra væri að stofna nýjan banka.

Það, sem ágreiningur getur orðið um, er það, að kann ske verði ekki farið fram á hæfileg hlunnindi, en jeg vil þá benda á, að það stendur meðal annars, að skattfrelsið þyrfti ekki að standa lengur en á meðan samskonar rjettindi Íslandsbanka giltu, sem mun vera um 12–13 ár enn þá.

Vona jeg svo, að nefndin taki þetta til athugunar. Skal jeg svo ekki lengja umr. um það að sinni, en ef nefndinni þykir ástæða til að bera sig saman við stjórnarnefnd hlutafjelagsins, til að komast að niðurstöðu um það, að þessi bankastofnun komist á fót með samkomulagi, og ef nefndin þá vildi gera einhverjar kröfur um hlunnindi frá hálfu hins opinbera, þá gæti hún gert það, og væri æskilegt, að það yrði áður en lengra er komið málinu hjer á þingi