18.02.1920
Efri deild: 6. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 174 í C-deild Alþingistíðinda. (1084)

18. mál, erfingjarenta

Flm. (Björn Kristjánsson):

Jeg hefi fátt að segja um þetta frv., með því að aðalástæðurnar sjást í frv., sem jeg hefi gert nokkuð greinilegri greinargerð fyrir en vant er, af því að hjer er um nýmæli að ræða.

En þó að jeg flytji frv., þá á jeg ekki hugmyndina nema að nokkru leyti. — Eiríkur prófessor Briem kom með frv. líks efnis til landsstjórnarinnar, þegar jeg átti þar sæti, og þótt meiri hluti stjórnarinnar vildi ekki sinna því, þótti mjer og hefir altaf þótt hún svo góð, að jeg hafði hana altaf í huga. En í stað þess, að í frv. upphaflega var rentunni ætlað að ná til allra stjetta og að eins til kvenna, hefi jeg breytt frv. þannig, að erfingjarentan gangi til vinnuhjúa, sem verið hafa 5 ár í ársvist eftir 16 ára aldur. Eru með þessu slegnar tvær flugur í einu höggi; bæði er þetta styrkur fyrir söfnunarsjóðinn og hefur ársvinnumensku til hærra veldis.

Jeg vænti, að hv. deild og þing fallist á frv., og er jeg viss um það, að þegar þjóðin veit, að 10 vinnuhjú geta fengið þennan styrk árlega, þá verði það til þess að auka virðinguna fyrir vinnumensku. Og er þá stefnt í rjetta átt, því að það er mín skoðun, að ársvist vinnuhjúa sje eins nauðsynlegur skóli og herskylda annara landa.

Jeg hefði gjarnan viljað vísa frv. til einhverrar nefndar, þar sem sæti ætti lögfræðingur, af því jeg er ekki viss um, hvort ekki þurfi ákvæði um hegning fyrir röng vottorð, sem húsbændur kynnu að gefa, og hefir mjer þá dottið í hug fjárveitinganefnd, því þar er lögfræðingur.