24.02.1920
Efri deild: 9. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 190 í C-deild Alþingistíðinda. (1120)

40. mál, björgunar og eftirlitsskipið Þór

Flm. (Karl Einarsson):

Jeg skal fyrst geta þess, að nokkrar prentvillur eru í till. og greinargerðinni, sem væntanlega má leiðrjetta á skrifstofunni, eins og karkó fyrir kaskó o. fl. Verst er prentvillan í 3. línu að neðan, frá með Faxaflóa, fyrir frá og með Faxaflóa.

Jeg hefi áður minst á ýmislegt, sem stendur í sambandi við till. þessa.

Það liggur í augum uppi, að þessu eina fiskiþorpi muni það ofvaxið að gera út skip, svo dýrt, að minsta kosti fyrst um sinn. Þess vegna er leitað til landsstjórnarinnar um útgerð skipsins, gegn því, að bæjarsjóður Vestmannaeyja greiði til þess 15000 kr. á ári, og hafi skipið þá á hendi jafnframt landhelgisgæslu fyrir suðurströnd landsins vetrarvertíðina með aðalbækistöð í Vestmannaeyjum. Það kann nú að þykja mikið gert fyrir sjómennina í Vestmannaeyjum að veita þeim þennan stuðning. En þó að þarna búi að eins lítið brot þjóðarinnar, þá eru það þó ekki óverulegar tekjur, sem þaðan renna til landssjóðs; þannig námu útfluttar vörur 1919 nálægt 6 milj. kr., og ef hverjar aðrar 2 þús. landsmanna væru eins drjúgar í framleiðslu, ættu útfluttar vörur landsins að nema ca. 40 sinnum það, eða 240 milj. kr.

Aðalatriðið er þó það, að skipið er nauðsynlegt vegna velferðar manna. En því má ekki heldur gleyma, að framleiðslan getur aukist við það, að sjómennirnir þannig verða ótrauðari til sjósóknar, enda veiðarfærum þeirra minni hætta búin en ella, þar sem botnvörpungar spilla mjög veiðarfærunum. Það má jafnvel gera ráð fyrir því, að netjaveiðar hætti, ef Alþingi verður ekki til þess að styrkja skipið.

Annars hefir atvinnuvegur Vestmannaeyinga verið mjög stöðugur, enda kemur hann ekki í bága við annan aðalatvinnuveg landsmanna, landbúnaðinn; þvert á móti, minst helmingur vertíðarmanna fer í sveit á sumrum, og margur maður hefir fasta atvinnu í Vestmannaeyjum á vetrum, en á annars heima á Suðurlandsundirlendinu og stundar þar sveitavinnu.

Jeg skal svo ekki fara fleiri orðum um till. alment.

Um einstaka liði er þess að geta, að í kol er ætlað 1000 tonna eyðsla á ári, en þá er skipið einnig mikið á sveimi. Það er talið nærri sanni, að skipið eyði 4–5 tons um sólarhringinn, þegar það er á fullri ferð, 2–3 tons með hálfri ferð. Nú eru vitanlega oft hvíldir og illviðri, svo að líklega er þessi liður fullhár; 160000 kr. mundi sennilega nægja. Um 2. og 3. lið áætlunarinnar er ekkert að segja. Í 4. lið er fæði ætlað 6 kr. handa hverjum skipverja, og má vera, að það sje fullhátt, en samsvarar þó nokkurn veginn því, sem áður var fyrir ófriðinn. Kaskóvátrygging er miðuð við verð skipsins, eins og það var, en nú er vitanlega hægt að selja skipið miklu hærra.

Laun eru ákveðin eins og í till. stendur. Skrifstofukostnaður 2000 kr., þar af 1200 kr. til framkvæmdarstjóra. Fyrning og viðhald 20000 kr.

Jeg álít ekki, að hægt sje að hafa það minna, þar sem skipið er orðið gamalt.

„Ýmislegt“ er vitanlega heldur lágt reiknað en hitt. Viðvíkjandi vöxtunum er það að segja, að jeg veit, að flestir hafa lagt fje í fyrirtæki þetta til þess að fá skip til björgunar, en ekki til að græða fje á því, og það er varla hægt að kalla það gróða, þótt þeir fái 5%, og jeg veit, að flestir mundu ánægðir, þótt þeir fengju ekki nema venjulega bankarentu. Svo lýk jeg máli mínu og vona, að málinu vegni vel í hv. deild.