23.02.1920
Neðri deild: 10. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 116 í B-deild Alþingistíðinda. (163)

8. mál, þingmannakosning í Reykjavík

Gunnar Sigurðsson:

Jeg get ekki verið samdóma hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) um, að ekki sje rjett að skifta kjördæmunum eftir sjávarútvegi og sveitabúskap. Jeg hefi áður bent á Kjósar- og Gullbringusýslu í þessu sambandi; þar er Hafnarfjörður svo langfjölmennastur allra sveita í kjördæminu, að í raun og veru geta kjósendur þar ráðið kjöri beggja þingmanna kjördæmisins. Sama má segja um Árnes-sýslu, að því er Stokkseyri og Eyrarbakka snertir. Í slíkum sjávarkauptúnum eiga kjósendur vitanlega mun hægra um vik að sækja kjörfundi, enda er reynslan sú, að í slíkum kauptúnum nota stundum alt að því helmingi fleiri atkvæðisrjett sinn en til sveita, og geta kauptún þessi því haft meiri áhrif á kosningar kjördæmanna en þau eiga sanngjarna kröfu á. Eina lækningin við þessu er að skilja stærstu kauptúnin frá og gera þau að sjerstökum kjördæmum. Kauptúnin mundu auk þess una því best, og í mínum augum ætti það að hafa góð áhrif á samvinnuna á milli sjávarþorpa og landbúnaðarsveita Ummæli hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) um það, að sum hjeruð stundi bæði sjávarútveg og kvikfjárrækt, og að þeim hjeruðum mundi erfitt að skifta, koma ekki til greina, þar sem það verða, eftir minni hyggju, að eins hin stærstu sjávarþorp, sem til tals munu koma sem ný kjördæmi. Jeg vil ljúka máli mínu með þeirri ósk, að þinginu auðnist sem fyrst að koma á rjettlátari kjördæmaskipun en nú er.