17.02.1920
Neðri deild: 5. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 226 í B-deild Alþingistíðinda. (343)

14. mál, stimpilgjald

Fjármálaráðherra (S. E.):

Jeg leyfi mjer að benda á, að um leið og lögreglustjóri stimplar reikningana, þá veitist honum tækifæri til að hafa nákvæmt eftirlit með innfluttum varningi.

Það, sem jeg tók fram áðan, um að stimpilskattur væri erlendis á tóbaki, gulli o. s. frv., verður ekki hrakið; enda þótt svo væri ekki, þá mætti taka þessa leið upp hjer, ef á annað borð væru líkur fyrir, að hún gæfist vel.

Háttv. 1. þm. Reykv. (Sv. B.) fann að því, hvernig sköttunum væri fyrir komið hjá oss. En okkar sköttum er fyrir komið á ógn líkan hátt í aðaldráttum eins og í nágrannalöndunum. Hjer er tekjuskattur, gróðaskattur, ýmiskonar tollar, eins og þar, og þar er sama óánægjan yfir sköttunum eins og hjer.

Háttv. þm. (Sv. B.) getur ekki borið stjórninni það á brýn, að hún hafi verið reikul í skattamálunum. Stjórnin hefir haldið þar beinar leiðir og með fastri hendi fylgt fram skattatillögum sínum, en háttv. þm. (Sv. B.) má ekki búast við, að stjórnin haldi fram til streitu frumvörpum sínum, ef betri tillögur koma frá þingmönnum sjálfum, en það hefir raunar ekki komið fyrir enn í minni stjórnartíð.

Mjer fanst ræða háttv. 1. þm. Reykv. (Sv. B.) mest vera glamur út í loftið og frekar tilraun til að koma sjer í mjúkinn hjá kjósendum heldur en um verulega „krítik“ væri að ræða.

Jeg minnist þess ekki, að hv. þm. (Sv. B.) hafi komið fram með neinar tillögur í fjármálum fyrir hv. þing, nema eitt skattafrumvarp, er hann kom með forðum, sem hið háa Alþingi flýtti sjer að drepa. Og sæti því ef til vill síst á honum að gera slíkt veður út af frv. þessu.