17.02.1920
Neðri deild: 5. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 233 í B-deild Alþingistíðinda. (348)

14. mál, stimpilgjald

Magnús Pjetursson:

Það eru að eins örfá orð út af ræðu hæstv. fjármálaráðh. (S. E.). Það var misskilningur hans, að jeg hafi viljað benda á ósamræmi í tölum þeim, sem hann fór með. Jeg var að eins að benda á, að við hefðum grætt miklu meira heldur en nokkrum kom til hugar á síðasta þingi.

Jeg fann einnig að því, hve lánsútboðið hefði komið seint til framkvæmda, og svaraði hæstv. fjármálaráðh. (S. E.) því á þá leið, að bankarnir hefðu ekki viljað greiða götu þess fyr en kosningar væru um garð gengnar. Stjórnin hefði verið á sama máli, því fjárhagur landsins væri þráfaldlega notaður sem kosningabeita, og væri alt slíkt skraf óheppilegt, því það kynni að veikja lánstraust landsins. Það getur verið, að sumum hv. þm. fullnægi þetta svar, en jeg er ekki í þeirra hópi. Jeg skil ekki, að bankarnir hafi tekið mikið mark á kosningum í þessu sambandi, og því síður skil jeg það, að stjórnin hafi viljað seinka láninu vegna þess, að eitthvað yrði á það minst við kosningar. Það var okkur óhagur, að lánið var tekið svo seint, og held jeg, að sá óhagur sje meiri en kjósendaskraf frambjóðenda.

Enn fremur vil jeg spyrja að því, hvers vegna stjórnin sá sjer ekki fært að reyna þetta lán án þess að hafa gengismuninn svona mikinn. Hjer er um allálitlega fjárhæð að ræða, þar sem gengismunurinn á þessum 3 miljónum nemur 120 þús. króna.

Um frv. sjálft þarf jeg litlu við að bæta. Jeg er ekki svo bölsýnn á fjárhag landsins, að jeg álíti þörf á að vinna þetta væntanlega tap, ef það þá verður, fyr en á næsta þingi, og þar er jeg alveg sammála hv. þm. S.-Þ. (P. J.).

Það er að vísu satt, að gróði ársins 1919 gerir ekki meira en jafna halla þann, sem varð á árinu 1918. En hitt stendur samt sem áður óhrakið og er öldungis víst, að alt það tap, sem ríkissjóður hefir beðið á stríðsárunum, vinst upp á sama árinu sem friður er saminn, vinst upp á einu ári. En þetta er ekki gleðilegt og glæsilegt í samanburði við aðrar þjóðir, þá veit jeg ekki hvað menn kalla glæsilegt, og það gæti meira að segja verið vafasamt, hvort þetta væri ekki óhæfilega mikill gróði og benti til þess, að of miklir skattar hefðu verið lagðir á þjóðina. Og því síður vil jeg nú fara að leggja á nýja skatta, óviðeigandi og ósanngjarna. Annars vil jeg ekki blanda mjer inn í það, að betra sje að „kontrollera“ skattinn, ef hann heitir stimpilgjald frekar en eitthvað annað — en mjer finst það að eins benda á vantraust til innheimtumannanna. Og viðvíkjandi hinu nýja aðflutningsbannsfrv., er hv. 1. þm. Skagf. (M. G.) boðaði, þá skal jeg strax taka það fram, að jeg tek því hreint ekki tveim höndum.