23.02.1920
Neðri deild: 10. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 307 í B-deild Alþingistíðinda. (487)

29. mál, bann innflutnings á óþörfum varningi

Þorleifur Guðmundsson:

Jeg álít, að svo mikil nauðsyn sje á, að hafist sje eitthvað handa í þessum efnum, að jeg vona, að deildin sjái sjer fært að samþykkja frv. þetta nú. Þeir neyðartímar geta komið, að nauðsynlegt sje að hindra aðflutning á óþarfavöru.

Jeg skal ekki rekja nánar nauðsynina á lögum sem þessum. Það hefir hv. frsm. (M. G.) gert. Jeg ætlaði að minnast á önnur atriði.

Háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) hjelt, að hjer yrði erfitt um framkvæmdir. Það getur verið. Þó vona jeg, að komandi stjórn sjái sjer fært að hafa umsjón með þessu, þótt ekki hafi hún sjerstaka nefnd sjer til aðstoðar. Lögreglustjórarnir, sem eru töluvert kunnugir því, hvað flutt er inn, mundu geta gefið leiðbeiningar. Jeg vona því, að deildin sjái sjer fært að samþykkja frv.

En svo vildi jeg minnast á annað atriði. Það eru bifreiðarnar. Það kveður oft við, að þær sjeu óþarfavara. Jeg er á annari skoðun. Eins og vjer vitum, eru ástæðurnar svo á landi voru, að hestar eru svo dýrir og fóður þeirra í því geipiverði, að mörgum er lítt kleift að nota þá. Þeir eru þar að auki miklu seinni í förum. Hrossahald er því nú orðið hrein og bein byrði. Hjer koma bifreiðarnar því að góðu haldi. Þetta hefi jeg talið mjer skylt að benda á, og vildi jeg, að stjórnin tæki einmitt þetta atriði til íhugunar.