26.02.1920
Neðri deild: 14. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 337 í B-deild Alþingistíðinda. (617)

44. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Sveinn Björnsson:

Jeg minnist þess, að þegar málið var til 2. umr. í gær á 5 mínútum, þá taldi jeg það athugavert, að feld yrðu lög um það, að veita íslenskum botnvörpungum undanþágu frá að hafa veiðarfæri sín fest við búlka innanborðs. Jeg hefi ekki komið fram með brtt. Þó vil jeg ekki láta málið fara svo úr deildinni, að jeg minnist ekki á þær tvær ástæður, sem eiga að rjettlæta það, að ákvæði þetta verði numið úr gildi. Önnur ástæðan er sú, að Englendingar hafi kvartað undan því, að sjer væri órjettur gerður með þessu; hin ástæðan er sú, að yfirmenn á „Islands Falk“ segjast eiga erfitt með að gæta landhelgisvarna meðan íslenskir botnvörpungar hafi þessa undanþágu. Hvorugt hefir nefndin lagt skjallega fyrir þingið, og þótti mjer nokkuð fljótræðislegt að nema þetta lagaákvæði úr gildi án slíks. Jeg hefi ekki fundið ástæðu til að koma fram með brtt., en jeg gat ekki látið hjá líða að minnast á þetta.