28.02.1920
Efri deild: 17. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 415 í B-deild Alþingistíðinda. (723)

49. mál, dýrtíðaruppbót og fleira

Atvinnumálaráðherra (P. J.):

Áður en 8. liður fæddist, lá fyrir deildinni fjöldi einstakra styrkbeiðna. Var það auðsætt, að ef farið var eftir þeim, eins og þær lágu fyrir, myndi það hafa mikinn kostnað í för með sjer, auk þess sem það hlaut að koma ójafnt niður á hina ýmsu landshluta. Mjer datt því í hug, að ef þingið vildi trúa stjórninni fyrir nokkru fje í þessu augnamiði, mundi hún geta haft umsjón með því, að það yrði að sem bestum notum. Engin vissa er heldur fyrir því, að þessir fyrirhuguðu bátar sjeu fáanlegir. En ef svo væri, er sýnilegt að stjórnin getur ekki verið rígbundin við umsóknir, en að hún verði að fara eftir því, hvar þörfin er brýnust. Mjer dylst engan veginn, hvílíkur vandi það er, en jeg býst við, að stjórnin myndi breyta í því, sem öðru, eftir bestu vitund. Jeg kysi helst, að stjórnin hefði óbundnar hendur í þessu máli, því verið gæti, að veita yrði fje til ferða á landi í bráð. Jeg vil því næst benda lítillega á 7. tölulið. Mjer finst, að hann hafi verið settur inn með nokkuð mikilli fljótfærni, þar sem ekki munaði nema 1 atkv., sem hann flaut á. Hæstv. fjármálaráðh. (M. G.) hefir talað nægilega um hann. Skal jeg að eins geta þess, að mjer finst ekki afhættis, þó hann bíði næsta reglulegs Alþingis og kæmi þá fram í frv.formi, sjerstaklega þar sem svo lítill atkv.munur var, 13 gegn 12. Enda er ekki hægt að breyta lögunum með þingsál.till. Það mætti gera þeim mönnum einhverja úrlausn, er fyrir skakkaföllum yrðu. Jeg býst við, að hægt væri að rjettlæta það á einhvern hátt.