28.02.1920
Efri deild: 17. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 415 í B-deild Alþingistíðinda. (724)

49. mál, dýrtíðaruppbót og fleira

Sigurður Eggerz:

Jeg skal fyrst víkja nokkrum orðum að 7. lið. Hæstv. fjármálaráðherra (M. G.) hefir minst á skýringu stjórnarinnar og tekið það rjettilega fram, að ekkert væri við hann að athuga, og mjer heyrðist hv. fjárveitinganefnd hafa verið á sömu skoðun. En annað mál er það, hvort ástæða sje til að breyta lögunum og gera þau sanngjarnari í garð kennaranna. En vitanlegt er, að þetta verður ekki gert með þingsályktunartillögu. Þingsályktunartillagan getur ekki haft aðra þýðingu fyrir stjórnina en þá, að svo framarlega sem stjórnin framkvæmir lögin á þann hátt, sem þingsályktunartillagan bendir til, þá verður stjórnin ekki af sama þinginu vítt fyrir það, og hitt, að þingið væntanlega mundi samþykkja þær breytingar á lögunum, sem þingsályktunartillagan hallast að, ef stjórnin flytti þær. Þingsályktunartillagan getur ekki heldur skoðast sem „autentisk“ skýring á lögunum, því til þess þyrfti lög. Í raun og veru er því hálfgerð ómynd að flytja þingsályktunartill. um þetta efni, en nú hefir hæstv. fjármálaráðherra (M. G.) lýst yfir því, að stjórnin mundi fara eftir henni.

Um sjálft efni till. er það að segja, að mjer virðist órjett að samþykkja b-liðinn. Virðist t. d. það gegn öllum venjum, að farandkennari, sem yrði forstöðumaður barnaskólans hjer, fengi launahækkun hjer við skólann fyrir þann tíma, sem hann var farandkennari. Aftur er meiri sanngirni í staflið a, og við hann gæti jeg unað, enda geng um leið út frá, að lögin um laun barnakennara verði endurskoðuð.

Þá vil jeg minnast á 1. lið þingsályktunartillögunnar. Þar er að mínu áliti um stórþýðingarmikið stefnuatriði að ræða, eins og jeg hefi oft áður sýnt fram á hjer á Alþingi. Stefnuatriðið er það, hvort vjer óskum sjálfir sem fyrst að hafa sem víðtækust áhrif á utanríkismál vor, eða hvort vjer viljum loka augum vorum fyrir þeim og láta Dani eina um þau. Afleiðingin af því afskiftaleysi voru gæti orðið þungur skattur á þjóð vora, og ábyrgðin verður þung fyrir þá, sem reyna að læða þeirri óheillastefnu inn hjá þjóðinni, undir sparnaðaryfirskini. Stefna sjálfstæðisflokksins hefir verið og verður sú, að ná sem fyrst fullum tökum á þessum málum.

Jeg get að öðru leyti vísað til fyrri ummæla minna um þetta mál. Jeg er hæstv. fjármálaráðherra (M. G.) þakklátur fyrir góðar undirtektir undir málið, og munu þær ekki rýra fylgi hans.

Hæstv. forsætisráðherra (J. M.) tók það rjettilega fram, að hann hefði heimildina til að senda sendiherrann, samkvæmt núgildandi fjárlögum, hvernig sem færi um þessa fjárveitingu, og er það rjett. Það er og rjett, að þessi upphæð er of lítil, en ef til vill á stjórnin völ á einhverjum efnuðum manni í stöðuna, og mætti þá ef til vill komast af með minna.

Að öðru leyti endurtek jeg það, að þjóðin og þingið verður að skilja, að utanríkismál vor, eins og annara þjóða, verða altaf meðal höfuðmála vorra, og sá flokkur, sem ekki skráir það stefnuskrá sína, verður ekki langlífur í landinu. Og ekki líður á löngu, áður en allir hjer á Alþingi verða sammála um þetta.