27.02.1920
Neðri deild: 17. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 431 í B-deild Alþingistíðinda. (760)

60. mál, vöruvöndun

Flm. (Bjarni Jónsson):

Jeg hygg, að mönnum sje kunnugt um það, að bæði fyr og síðar, og einkum nú, keppast þjóðirnar við að vanda vörur sínar. Jeg komst einu sinni áþreifanlega að raun um þetta. Jeg vildi fá upplýsingar hjá þeim á hvern hátt þeir verkuðu fisk sinn, sem þeir senda til Vesturheims og þótti afbragðs vara og var mjög eftir sótt. En það var ekki við það komandi. Til þess að geta komist að raun um aðferð þeirra við verkun fisksins hefði maður hreint og beint þurft að gerast óbrotinn vinnumaður hjá þeim, því að þá mundi þá naumast hafa grunað, til hvers leikurinn var gerður. Þetta er að eins sýnishorn.

Nú sem stendur er lögð mikil áhersla á það í Noregi að vanda alla fiskverkun, því að nú þykir íslenski fiskurinn betri vara en þeirra. Þar sem nú Íslendingar flytja svo mikið út af kjöti og síld, þarf þess vel að gæta, að allur umbúnaður um vöruna sje góður. Nú hefir verið mat á fiski og kjöti um tíma, og mun allur umbúnaður um þá vöru hafa verið í góðu lagi En það hefir þótt koma fyrir, að síldarinnar væri ekki eins vel gætt, og fyrirsjáanlegt tjón, ef það hefði þær afleiðingar, að útlendir síldarkaupmenn mistu alla tiltrú til síldarmatsmanna eða vottorða þeirra, sem síldinni fylgja. En hjer er eitt, sem mjög ber að athuga, og það eru ílátin, sem síldin er látin í. Í tilefni af erindi því, sem beykir einn hjer í bænum, Jón Jónsson, hefir sent Alþingi, hefi jeg leyft mjer að koma hjer fram með till., sem felur það í sjer, að Nd. skori á hæstv. stjórn að hafa strangt eftirlit með vöruvöndun í landinu, einkum tunnusmíð og síldarmati, og þessa till. býst jeg við að hin hv. deild sjái sóma sinn í að samþ.

Þar sem 2 nætur eru nú orðnar hjer sem 5 mínútur, hefi jeg ekki getað kynt mjer nægilega löggjöf þá, sem að þessu lýtur, en sje svo, að hún grípi yfir þetta, og þar af leiðandi engar nýjar lagagreinir nauðsynlegar, þá vil jeg að eins að hv. deild brýni það fyrir stjórninni að gæta þessara laga, svo að varan sje ekki sett í óhreinar og lekar tunnur. Jón Jónsson, beykir, sem svo er vel kyntur, að ekki er ástæða til að rengja orð hans, getur þess í erindi sínu, að frá einum stað á landinu hafi kjöt verið flutt út í lýsistunnum, og hafi auðvitað þar af leiðandi þótt ill vara og ósamboðin siðuðum mönnum. Það mun öllum ljóst, að ef slíkt kemur fyrir sem þetta, þá er það ekki lítill skaði og niðrun fyrir landsmenn, einkum þar sem íslenska kjötið er eitthvert hið besta kjöt, sem hægt er að fá á heimsmarkaðinum, ef vel er til þess vandað. Jeg vil benda mönnum á það, sem Jón Jónsson getur um í erindi sínu, að nauðsynlegt sje, að tunnusmiðir hafi lært iðn sína, ef þeir eiga að geta smíðað tunnur utan um vörur landsmanna, sem nema mörgum miljónum á ári hverju. Þessu viðvíkjandi gæti því verið rjett að setja eitthvert kunnáttuskilyrði, en meðan ekki hefðu nægilega margir lært svo mikið, að þeir gætu uppfylt þau, þá mætti gefa undanþágu, uns menn hefðu aflað sjer hinnar nauðsynlegu leikni og vandvirkni, sem þarf til að smíða góðar tunnur og lagarþjettar.