27.02.1920
Neðri deild: 17. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 433 í B-deild Alþingistíðinda. (761)

60. mál, vöruvöndun

Magnús Kristjánsson:

Jeg stend ekki upp til að mótmæla till. verulega, en býst þó ekki við, að af henni stafi mikið gagn fyrir land nje lýð, og það af þeirri ástæðu, að jeg veit ekki betur en að löggjöfin sje búin að ganga frá lögum um vöruvöndun, eftir því sem við getur átt í bráð.

Síldarmatslögunum var breytt á síðasta þingi, og jeg geri ekki ráð fyrir, að þau myndu batna að neinu leyti, þó þessi till. yrði samþykt. Það er öllum kunnugt, að í þeim lögum er það skýrt tekið fram, að ekki má flytja út síld nema í góðu og forsvaranlegu ástandi.

Jeg veit ekki til, að neitt hafi komið fram, er gefi brýna ástæðu til að setja sjerstakar reglur um þessi efni. Það er altaf verið að skipa stjórninni hitt og annað, og hygg jeg, að okkur muni öllum ljóst, að sumt af því komi ekki að svo miklu liði, enda ósanngjarnt að ætlast til, að stjórnin geti komið öllu í verk. En eins og jeg tók áður fram, mun jeg ekki verða á móti till., en er að eins ekki trúaður á, að hún komi að svo miklum notum, sem hv. flm. (B. J.) ætlar.