27.02.1920
Neðri deild: 17. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 436 í B-deild Alþingistíðinda. (765)

60. mál, vöruvöndun

Jakob Möller:

Till. gefur ekki tilefni til að ræða breytingar á síldarmatslögunum, og er því ekki rjett að fara að rökræða neinar slíkar breytingar.

Till. fer fram á, að stjórnin taki rækilega til yfirvegunar, hvað gera megi til að efla vöruvöndun, og einnig að hún hafi eftirlit með vöruvöndun, sem lög standa nú til, án þess að fyrirskipa nokkuð nýtt, annað en það, sem stjórninni kynni að þykja tiltækilegt. En samt vildi jeg þó minnast lítið eitt á mótbárur hv. þm. Ak. (M. K.) gegn því, sem jeg sagði áðan um galla, sem líklegt væri að væru á síldarmatslögunum. Hann talaði um, að við breytingarnar á síldarmatslögunum hafi verið farið eftir tillögum aðalsíldarmatsmanns. En það er kunnugt, að ýmsir síldarmatsmenn vildu fara miklu lengra, og þar á meðal var annar aðalsíldarmatsmaðurinn. Einnig sagði hann (M. K.), að farið hefði verið eftir tilmælum ýmsra útgerðarmanna. En það getur verið vafasamt að taka of mikið tillit til óska útgerðarmannanna sjálfra, því það er vitanlegt að slík lagaboð eru venjulega misjafnt þokkuð einmitt af þeim, sem við þau eiga að búa, og sumir hverjir meta meira ímyndaðan stundarhag sinn en framtíðarhag atvinnuvegarins.

Hv. þm. (M. K.) taldi mikla annmarka á, að fært myndi að lögbjóða endurmat á síld áður en hún yrði flutt út. En jeg verð að telja, að það mundi frekar en nokkuð annað tryggja okkur góðan markað og einnig vernda okkur í samkepninni við útlendinga.

Að síðustu vildi jeg svara því, að mjer er ekki kunnugt um annað en að síldin, sem jeg talaði um í fyrri ræðu minni, hafi verið íslensk vara, en ekki söltuð utan landhelgi og flutt út ómetin.