28.02.1920
Neðri deild: 18. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 442 í B-deild Alþingistíðinda. (776)

56. mál, aukning ullariðnaðar í landinu

Flm. (Eiríkur Einarsson):

Þótt þetta sje mikið asaþing, þá lít jeg svo á, að ekki saki, þó borin sje hjer fram tillaga til þingsályktunar, er eigi felur í sjer neina fjárbeiðni. Jeg skal ekki tefja með löngum umræðum, enda þarf þess ekki, því málið ætti að vera öllum ljóst. Allir vita, hve mikil lífsnauðsyn landsmönnum er að því, að ullariðnaður leggist ekki niður, og ef einhver finnur þessari till. eitthvað til foráttu, þá væri gaman að heyra þau rök, sem hann hefir fram að færa. Það er að vísu sorgleg reynsla, að tóvinnuvjelafyrirtæki, sem hjer hefir verið stofnað til, hafa eigi reynst arðvænleg, sum hver, og því lagst niður; til þess hefir margt borið, þekkingarleysi þeirra, sem þar hafa unnið að, ófullnæg áhöld og vinnubrögð og auðvitað ekki síst ræktarleysi almennings við stuðning innlends iðnaðar. En nú þarf eigi heldur þetta neinn að hræða, því að ullarverksmiðjur, sem nú starfa í landinu, kváðu vera arðvænleg fyrirtæki. En mönnum verður að vera það hugfast, að þær ullarvinnuverksmiðjur, sem nú eru til í landinu, eru ekki nema vísir að því, sem verða skal, og allir sjá, hve mikið þessi atvinnuvegur þarf að aukast og dafna til þess að geta kept við og útrýmt hinum útlenda fatnaði. Að þetta sjeu einkafyrirtæki og eigi því ekki að berast undir landsstjórnina eða njóta tilstyrks hennar, það get jeg ekki sjeð að hafi við neitt að styðjast. Hverjum ætti að vera annara um hag landsbúa en einmitt stjórninni. Og jeg álít, að engum sje skyldara en henni að sjá um, að fje landsmanna berist ekki út úr landinu fyrir ljelega vöru eða illan og dýran klæðnað, og þess vegna finst mjer full þörf á því, að stjórnin hefjist handa og brýni það fyrir landsmönnum og styrki þá á allan hátt til að auka iðnað sinn. Liggur hjer við metnaður þjóðarinnar, þar sem landsmenn hafa til skamms tíma mestmegnis klætt sig sjálfir með ullariðnaði á heimilunum, en nú er tekið fyrir það og því um stórhnignun að ræða.

Með því að auka ullariðnað í landinu væri stórt skref stigið fram á við, og engum dylst það, að það á að vera keppimark þjóðarinnar að geta klætt sig sjálf úr sinni eigin ull, í stað þess að senda hana óunna út og fá í staðinn illan klæðnað og dýran, og er auðsætt, hver búhnykkur slíkt væri fyrir landsmenn. Jeg veit, að almenningur veit þetta og vill stofna til nýrra ullariðnaðarfyrirtækja, en skortir fje, samheldni og ráð til þess að hrinda þeim af stað svo um muni. Hjer á stjórnin að koma til hjálpar með fjárframlögum, sem til hverra annara stórfyrirtækja í búnaði, því að þetta er ekki síður þýðingarmikið mál fyrir landbúnaðinn og allan almenning en það, sem í venjulegri merkingu er nefnt búnaðarframkvæmdir, svo sem áveitugerðir, túnastjettur o. s. frv. Svo á stjórnin og að öðru leyti að beita sjer fyrir málinu, liðsinna þeim einstaklingum og sameina þá, er vilja vinna því gagn. Þetta gæti stjórnin gert í samráði við Búnaðarfjelag landsins.

Það vita allir, sem á annað borð vilja vita það, að landbúnaðinum fylgja engin stórvægileg uppgrip, — en því meira ríður á því, að öll tök sem menn hafa honum til bóta, verði notuð og að menn sitji sig ekki úr færi að ljetta undir með honum, þegar þess er kostur. Jeg tel engan efa á því, að þetta yrði honum til eflingar. Deyfðin og drunginn sem nú hvílir yfir öllu verður að víkja. Það tjáir ekki að leggja árar í bát og nema staðar, því þá er íslenska þjóðin á glötunarvegi. Nei. Landsmenn verða að hefjast handa og sýna það í verkinu, að þeir sjeu þess megnugir að vera sjálfstæð þjóð: þeir eiga ekki að láta sjer nægja að taka aðrar þjóðir til fyrirmyndar í orði kveðnu, heldur í nytsamlegum framkvæmdum, og verða þar sjálfir til fyrirmyndar. En til þess þarf margt að breytast. Þjóðin þarf að leggja á sig meira starf en nú virðist vilji fólksins. Þyrfti jafnvel fremur að lengja vinnutímann en stytta hann og meta meir heildarhag þjóðarinnar en tímavinnukaupið.

Vænti jeg þess, að hv. þingdeild geti fallist á, að það sje ekki ótímabært, þótt vakið sje máls á þessu og landsstjórnin hvött til að beitast þar fyrir bráðum og miklum aðgerðum, og legg jeg þar með tillögu mína undir atkvæði deildarinnar.