24.02.1920
Efri deild: 9. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 445 í B-deild Alþingistíðinda. (781)

38. mál, flutningabrautin frá Þjórsá austur yfir ytri-Rangá

Flm. (Guðmundur Guðfinnsson):

Jeg skal ekki tefja tímann. Eins og kunnugt er, hefir verið samþykt hjer á síðasta þingi þingsályktun um endurskoðun vegalaganna frá 1907, og stjórnin síðan vísað því máli til vegamálastjóra til athugunar. Þessi till. er nú komin fram af því, að mjer þótti vanta inn í fyrri ályktunina ákvæði um flutningabrautina austur yfir Ytri-Rangá. En óánægja hefir lengi verið austur þar með viðhald brautarinnar, enda er það erfitt og brautin oft ófær eða illfær. Þó er flutningsmagnið, sem um braut þessa fer, mjög mikið, og umferðin að því skapi, eins og að líkum lætur, þar sem um hana ganga aðdrættir mörg hundruð manna.

Braut þessi var bygð árið 1898–99, samkvæmt vegalögunum frá 1894, þar sem gerðar eru minni kröfur um vegagerðina en síðar varð, sem sje að brautin ætti að eins að vera akfær á sumrum. En þegar við þetta bætist, að vegarstæðið var ilt í upphafi og óhægt um aðdrætti ofaníburðar, er auðsjeð, að ærin þörf muni vera að athuga þetta atriði vegna viðhaldsins, enda er það allþungur baggi á sýslufjelaginu.

Mjer virðist því öll sanngirni mæla með því, að reynt verði að kippa þessu í liðinn, og öll ástæða til að ætla, að það verði ekki með öðru betur gert en þeirri till., sem hjer liggur fyrir.