26.02.1920
Neðri deild: 14. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 486 í B-deild Alþingistíðinda. (81)

Stjórnarskipti

Bjarni Jónsson:

Það hefir þótt mestum tíðindum sæta á þessu þingi, hve nær og hvernig mundi ganga að koma nýrri stjórn á laggirnar. Vænti jeg því, að hv. þm. misvirði ekki, þótt tekin sje drykklöng stund af þingtímanum, hversu dýrmætur sem hann er, til þess að heilsa stjórn þessari, er fæðst hefir með svo langvinnum þrautum, sem raun er á orðin. Mun jeg fyrst lesa yfirlýsingu, er sjálfstæðisflokkurinn hefir falið mjer að bera fram, svo hljóðandi:

„Sjálfstæðisflokkurinn styður ekki stjórnina, nema einn maður, og ber enga ábyrgð á athöfnum hennar, nje lofar að eira henni.“

Síðan ætla jeg að bæta við nokkrum orðum frá eigin brjósti. Segi jeg þau á eigin ábyrgð, en ekki í nafni flokksins, en það mun þó sýna sig síðar, að hann er mjer samdóma um nálega öll atriðin.

Það er þá upphaf míns máls, að þótt þessi yfirlýsing sje fram komin, þá er það hvorki fyrirætlun mín nje flokksins að vera sem mannýgur hrútur og skopa skeið í stjórnina, hvort sem hún vinnur verk sitt vel eða illa. Miklu fremur vil jeg segja stjórninni hitt, að hún skal eigi þurfa að eiga von fjandskapar af mjer, ef hún fylgir um sína daga þeirri stefnu, sem jeg mun nú lýsa. En geri hún það ekki, þá mun jeg ekki láta mitt eftir liggja, að henni verði hlýtt yfir síðar, og gert til hennar að maklegleikum.

Mjer þótti vænt að heyra það, að forsætisráðherra lofaði því, að stjórnin mundi vilja gæta sjálfstæðis vors. En sakir þess, að hann stiklaði fremur ljettilega á því máli, mun jeg tala nokkru nánar um fáein atriði. Jeg vil þá fyrst benda á, að nauðsyn ber til þess, að einn ráðherrann sje utanríkisráðherra og heiti svo, með öðrum orðum, að það sje öllum heimi ljóst og vitað, að hjer sje það ráðherrastarf til. Mönnum er það kunnugt, að samkvæmt sambandslögunum fara Danir með utanríkismálin í umboði voru. En þessir umboðsmenn verða einhversstaðar að fá að vita, hvað þeir eiga að gera fyrir oss. Umbjóðandi verður því að sjá um, að sá staður sje til. En það er með öðrum orðum, að vjer, umbjóðandinn, verðum að hafa ráðherra til þess að fara með utanríkismál vor, svo að hann geti ætíð sagt formanni umboðsmannasveitarinnar, utanríkisráðherra Dana, hvers vjer óskum af þeim samningsbundnu starfsmönnum vorum. Öllum má vera það ljóst, að slíkt væri eigi brot á sáttmálanum, heldur hin eina skynsamlega framkvæmd á honum. Það er því í samræmi við sáttmálann, nauðsynlegt og hyggilegt, að einn ráðherranna sje það, og er þá sjálfsagt, að hann heiti svo. Annars kynni ókunnar þjóðir að villast á sáttmálanum og halda, að Ísland hefði eigi vald utanríkismála sinna, sem það hefir þó að efalausu.

Þá verð jeg að minnast á sendiherrann í Kaupmannahöfn. Legg jeg mikla áherslu á, að vjer höfum sendiherra vorn á þeim eina stað, sem vjer getum gert það í fullu samræmi við sambandslögin. Ber tvent þar til. Það fyrst, að oss er hin mesta nauðsyn að hafa umsýslu slíks manns þar, og að á engu öðru sjá þjóðir heimsins betur, að Íslandi er áskilinn sendiherrarjettur í sáttmálanum. Það annað, að vjer getum ekki gert oss bera að svo mikilli óhæversku við Danmörk, að hún ein allra ríkja hafi engan íslenskan sendimann, þar sem hún hefir þó ein allra ríkja sent sendiherra hingað. Vera má, að hv. þingmönnum þyki hjer eiga að senda einn sendimann til Danmerkur og setja öll önnur ríki hjá. En það er hinn mesti misskilningur, því að hvar sem Danir hafa sendiherra, þá er sá hinn sami samkvæmt sáttmálanum sendiherra Íslands eftir umboði. Það er því eigi að eins sjálfsagt vegna hagsmuna vor sjálfra að hafa sendiherra í Kaupmannahöfn, sem og margborgar sig, heldur er það og sjálfsögð hæverskuskyldu. Að þessu máli mun jeg styðja forsætisráðherra.

Auk þessa vil jeg lýsa yfir því, að mjer fellur það vel, að forsætisráðherra hefir lagt áherslu á, að stjórnin mundi senda íslenskan ræðismann til Miðjarðarhafslandanna, því að jeg hefi um margt ár haldið því fram, að þetta væri sjálfsagt og mundi borga sig þúsundfalt. En í sambandi við þetta vil jeg skora á stjórnina að láta 7. gr. sáttmálans ekki ónotaða að öðru leyti, heldur senda unga fulltrúa til sendisveita þeirra, er sitja í helstu viðskiftalöndum vorum, til þess að þar verði unnið af þekkingu næstu áratugina Íslandi til hags, og til þess að vjer höfum æfða menn með nægri þekkingu, er vjer að sjálfsögðu tökum utanríkismálin í vorar hendur 1940 ef það verður eigi fyr.

Þá er enn eitt atriði, sem jeg skora á stjórnina að leggja allan hug á. Það er að fulltrúar þeir, sem aðrar þjóðir hafa hjer, sjeu þess kyns erindrekar, að sending þeirra feli í sjer viðurkenning sendanda á fullveldi voru. En til þess þurfa þeir að vera sendir eða hafa með höndum sendiherrastarfsemi, eða „diplomatisk Function“ á erlendu máli. Jeg veit, að eigi þarf nema hálft orð frá stjórnarinnar hendi til þess, að frá Svíþjóð komi slíkur maður, og jeg veit það með allra bestu heimildum, svo að það er beinlínis stjórnarinnar sök, ef svo verður eigi. Jeg veit og, að eigi þyrfti öllu meira fyrir að hafa, að slíkur maður kæmi frá Þýskalandi, og jeg hygg, þótt jeg hafi eigi neina ábyggilega vitneskju um það, að sama mundu Frakkar og Englar gera, því að menn muna, að þeir höfðu hjer einna fyrstir þjóða sendimenn sína, og það meðan öðruvísi stóð á. Þá mundu Norðmenn frændur vorir eigi vilja verða eftirbátar um þetta, og það því síður, sem Stórþingið sendi oss árnað sinn óðar en viðurkenning Dana var fengin um fullveldi vort. Vil jeg skora fastlega á stjórnina að verða hjer vel við, því að jeg veit, að ekki veldur annað en viljaleysi, ef ekki verður að gert. En jeg vona, að hún geri þetta sem fyrst og að jeg þurfi eigi síðar að deila við hana um þetta mál.

Enn vil jeg minnast á smærri mál, sem standa í sambandi við utanríkismálin. Og vil jeg þá skora á stjórnina að sýna það öllum heimi með öllum einkennum, stórum og smáum, að skilnaður er orðinn milli konungsríkjanna Íslands og Danmerkur, þótt sami maður sje konungur í báðum. Alþingi veit ekki enn um, hvort umboðsmenn vorir í utanríkismálunum hafa skjaldarmerki vort og fána á þeim stöðum, sem vera ber. Innsigli ríkisins mun nú um síðir komið, en engi veit, hvort það er notað eða ekki. Þá væri og æskilegt, að íslenskir embættismenn bæri eigi lengur danska hnappa, úr því íslenskir eru fengnir seint um síðir. Enn verð jeg að telja það æskilegt, að gert verði sjerstakt íslenskt heiðursmerki, sem sæma mætti með erlenda menn. Jeg veit, að því má með rjettu halda fram, að frá sjónarmiði heimspekinnar sje þetta fánýtt glingur, og þjóni eigi síður ranglætinu en rjettlætinu. En hitt verður eigi hrakið, að það mundi venja menn við að líta á Ísland sem fullvalda konungsríki, ef það hefði sama sið sem önnur sjálfstæð ríki, að sæma erlenda menn heiðursmerki. Víst er það og, að sá einstaklingur er lýttur, sem fylgir eigi landssið, og svo mun vera um ríkin, að þau eru lýtt, ef þau fylgja eigi heimssið. Hitt mundi ónýtisverk fyrir oss, að freista að endurbæta heiminn í þessu, því að hann mundi halda uppteknum hætti, þótt vjer skærumst úr leik.

Um myntsláttu þarf eigi að tala. Jeg hafði skrifað hana mjer til minnis, þegar jeg ætti að heilsa hinni nýju stjórn. En nú hefi jeg borið fram frumvarp um hana, og stjórnin tekið vel undir, enda tel jeg sjálfsagt að gera nú þegar alla samninga þar að lútandi og allan nauðsynlegan undirbúning.

Þá kem jeg að innanlandsmálunum. Nefni jeg þar fyrst skólamálin. Vil jeg fastlega skora á stjórnina að láta nú verða framkvæmd á ályktunum þessarar háttv. deildar á undanförnum þingum, að endurbæta alt fræðslukerfið og einkum að gera mentaskólann aftur að lærðum skóla og greina hann frá þeim óæðri skólum, sem hann er nú tengdur við.

Þótt jeg hafi áður minst á það hjer á þingi, vil jeg þó nú skora fastlega á stjórnina að gæta þess, að allir kjósendur í landinu hafi jafnrjetti. Ekki tala jeg hjer um, hvort margir eða fáir kjósendur komi á hvern þingmann, heldur um hitt, að allir geti notið kosningarrjettar síns. Menn þekkja hina alkunnu sögu um storkinn og tófuna, er báru svo á borð hvort fyrir annað, að hvorugt gat neytt matarins. Á sama hátt er farið með kjósendur, þegar kjörfundur á að standa hluta úr degi, því að ekki geta allir farið frá heimilunum í einu og skilið börn og fjenað eftir umsjárlaust. Kjörfundur verður að standa miklu lengur en nú gerist, að minsta kosti tvo til þrjá daga, svo að fólkið geti farið til skiftis á kjörstaðinn og hver maður neytt atkvæðis síns. Mundi og slíkt fyrirkomulag, sem nú hefir lýst verið, góður undirbúningur undir atkvæðagreiðslu þá, sem hjer á að fara fram að 20 árum liðnum um sambandslögin. Mun þá full ástæða til, að hver maður geti neytt atkvæðis síns. Það er því rjett að taka þá aðferð upp nú þegar, því að miklu máli skiftir það, að stjórnarskrá landsins veiti mönnum eigi rjettindi með þeim hætti, að þeim sje ómáttugt að njóta þeirra. Verður því að sjá um, að lög eða venjur banni mönnum eigi að njóta þeirra rjettinda, sem þeir hafa að fullum lögum, svo sem kosningalögin gera nú við sveitamenn um land alt. Vænti jeg, að stjórnin verði vel við og leggi fyrir næsta þing breytingar á kosningalögunum, til þess að þær endurbætur fáist, sem nú hefi jeg nefnt.

Þá er og nauðsynlegt, að stjórnin gæti jafnvægis í atvinnuvegum landsins. Því að allir vita, að enginn er sá einn atvinnuvegur, að hann ali alla landsmenn, heldur gerir það samstarf allra atvinnuveganna, sem í landinu eru. Og þótt landbúnaður verði ætíð höfuðatvinnugrein í þessu landi, þá mega hinar atvinnugreinarnar ekki verða út undan, heldur verður að vera jafnvægi og rjettlæti milli þeirra. Getur stjórnin vel búist við deilum um þetta í framtíðinni, nema hún sjái hjer vel fyrir.

Þá tel jeg stjórninni og skylt að sjá um, að rjettlæti sje í öllum fjármálum, eða gera að minsta kosti tilraun til þess að láta gjöld koma rjettlátlega niður á landsmönnum. Hitt mundi og vera lítt sæmilegur gróðavegur fyrir ríki, að hafa fje af verkamönnum sínum eða svelta þá. Vænti jeg, að stjórn landsins hitti aðra vegi til að afla ríkissjóði fjár.

Þá kem jeg að vatnamálunum. Þar á stjórnin að vinda sem bráðast að því, að rannsóknir fari fram, og síðan virkjanir smávatna á landinu, til þess að ylja, lýsa og fegra híbýli manna, og til smáiðju og daglegra verka. Þá verður hún tafarlaust að sjá um, að Sogið sje rannsakað, áætlanir síðan gerðar og að ríkið, í sambandi við hjeruðin og bæina við Faxaflóa og austan fjalls, virki nokkurn hluta Sogsins. En stóriðju má ekki hleypa hjer að; í hæsta lagi mætti virkja 5000–6000 ho. meira en þyrfti annars til almenningsnota og hafa til saltvinslu t. d., ef orkan yrði með því ódýrari fyrir almenning. Vel gæti jeg trúað því, að jeg þyrfti að deila um þetta mál við stjórnina, hversu sárt sem mjer kynni að falla það, nema því að eins, að hún gæti vel jafnvægis atvinnuveganna og styðji þá auðvitað ekki slík fyrirtæki, sem stóriðja er, sem gæti í einum svip stöðvað höfuðatvinnugreinar vorar, landbúnaðinn og sjávarútveginn.

Í bankamálunum vænti jeg þess, að stjórnin fylgi þeirri stefnu, að gera bankastofnun ríkisins svo sterka, að hún geti orðið aðalpeningastofnun landsins, er ráði mestu um peningaverð og viðskifti, hvort sem hún gerir það með því einu, að auka Landsbankann, eða með því að gera báða bankana að ríkisbanka.

Fylgi stjórnin þessari stefnuskrá í öllu og með dugnaði, þá býst jeg ekki við að verða meinsmaður hennar, þótt jeg sje ekki stuðningsmaður hennar.

Jeg mun nú í ræðulok hnýta hjer við lítilli athugasemd um sjálfstæðisflokkinn. Sumir menn segja, að gömlu flokkarnir sjeu sjálfdauðir, og þar á meðal sjálfstæðisflokkurinn. Hinir flokkarnir mega svara fyrir sig og segja til, hvort þeir sjeu dauðir eða eigi. Þar um segi jeg ekkert, en hitt tel jeg ósæmilegt að segja, að sá flokkur eigi nú engan tilverurjett í landinu, sem hefir frá fyrstu haft það á stefnuskrá sinni að varðveita sjálfstæði landsins, og hefir enn, svo sem jeg hefi reynt að sýna í ræðu minni. Að flokkurinn hefir jafnan haft þessa stefnuskrá, geta menn sjeð, ef þeir líta í gömul blöð af Ingólfi og Ísafold. Flokkurinn hefir haft og hefir enn á stefnuskrá sinni fullkomna landvörn, og vill hafa Ísland handa Íslendingum, og heiður landsins út á við og inn á við metur hann öllu öðru dýrri. Og mjer þætti gaman að sjá þann flokk, sem hefir betri tilvistarrjett í landinu.