28.02.1920
Neðri deild: 19. fundur, 32. löggjafarþing.
Sjá dálk 63 í C-deild Alþingistíðinda. (936)

57. mál, peningamálanefnd

Flm. (Jón Auðunn Jónsson):

Það er dálítil leiðrjetting út af misskilningi þeirra hv. 2. þm. Reykv. (Jak. M.) og hv. þm. Dala. (B. J.), að jeg hefði sagt, að ekki fengist útborgað það fje, sem við ættum í Danmörku. — Jeg sagði, að við gætum líklega ekki fengið að ráðstafa því eins og við vildum. (B. J.: Getum við þá ekki fengið það útborgað í gulli?). Nei, alls ekki, útflutningur á gulli er bannaður frá Danmörku. En það getur sem sagt komið mjög hart niður á okkur, ef við getum t. d. ekki fengið að borga kol frá Englandi, kann ske fleiri tugi þúsunda punda, en eigum kann ske það fje, eða meira, inni í dönskum bönkum.